Þriðjudaginn 28. janúar kl. 12 flytur Linda Ásdísardóttir sérfræðingur á Ljósmyndasafni Íslands erindi í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands.
Í fyrirlestrinum verður fjallað um helstu einkenni ljósmynda Gunnars Péturssonar (1928-2012) og þann áhugaverða myndheim sem birtist í verkum hans. Reykvíkingurinn Gunnar var virkur í bylgju áhugaljósmyndara uppúr 1950 þegar nýir straumar hösluðu sér völl og listræn ljósmyndun komst á dagskrá. Hið óhlutbundna var leiðarþráður í öllum verkum Gunnars og abstrakt ljósmyndir hans teljast einstakt framlag til fagurfræðilegra ljósmyndunar á Íslandi. Snemma á ferlinum var borgarlandslag og mannlíf áberandi í myndum hans en með tímanum einbeitti hann sé meira að náttúru. Gunnar ferðaðist vítt og breitt um hálendi Íslands með sínum helsta ferðafélaga Ingibjörgu Ólafsdóttur sem var mikill ástríðuljósmyndari líkt og hann sjálfur.
Fyrirlesturinn verður ríkulega skreyttur af ljósmyndum bæði frá yfirstandandi sýningu og væntanlegri bók en einnig óséðum myndum úr viðamiklu safni Gunnars sem er varðveitt í Ljósmyndasafni Íslands í Þjóðminjasafni. Lítið hefur birst af myndum Gunnars þar til nú.
Ljósmyndasýningin Í ljósmálinu – Gunnar Pétursson í Myndasal Þjóðminjasafn stendur fram til 30. ágúst og samnefnd bók er væntanleg 16. febrúar.
Aðgöngumiði í safnið gildir. Ókeypis fyrir handhafa árskorts. Árskort kostar 2.000 kr. og gildir á allar sýningar og viðburði á Þjóðminjasafninu við Suðurgötu og í Safnahúsinu við Hverfisgötu.

The post Þjóðminjasafn Íslands: Myndheimur Gunnars Péturssonar appeared first on sím.