
Borgarbókasafnið | Menningarhús Gerðubergi
Laugardaginn 2. mars kl. 10.30-13.30
Hin árlega ráðstefna um barna- og unglingabókmenntir verður nú haldin í 22. sinn í Borgarbókasafninu Gerðubergi. Umræður um gæði barnabóka náðu nýjum hæðum á árinu sem leið. Margir kölluðu eftir vandaðri vinnubrögðum en öðrum þótti gagnrýnin of hörð. Þá heyrðist jafnvel setningin: „þetta er bara barnabók“ og varð unnendum barnabóka bylt við.
Eftir þrotlausa vinnu barnabókahöfunda, bókasafnsstarfsmanna, foreldra og kennara virðist sem enn séu barnabókmenntir settar skör lægra en aðrar bókmenntagreinar. „Þetta er bara barnabók“ er því yfirskrift ráðstefnunnar í ár og munu ræðumenn kafa í stöðu barnabókarinnar frá ýmsum sjónarhornum.
DAGSKRÁ
Lilja Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra ávarpar ráðstefnugesti
En hvað með börnin?
Margrét Tryggvadóttir, rithöfundur.
Hún ræðir um aðgerðir stjórnvalda til að efla íslenska tungu. Íslenskan þarf aðstoð og nú ætla stjórnvöld að ráðast í aðgerðir til að bjarga því sem bjargað verður. Hvernig sjá stjórnvöld stöðu barnabókarinnar fyrir sér á næstu misserum? Hver er staða barnabókahöfunda – og höfunda almennt – í nýju stuðnings- og styrkjakerfi? Og sjáum við fram á að aðgengi íslenskra barna að góðum bókum sem endurspegla uppruna þeirra og samtíma aukist á næstunni?
Barnabækur í fyrsta farrými
Katrín Lilja Jónsdóttir, ritstjóri.
Katrín segir frá vefmiðlinum Lestrarklefanum sem er síða með umfjöllun um bækur og fréttakornum úr bókmenntaheiminum. Umfjöllun um barnabækur hefur verið að skornum skammti og Lestrarklefinn hefur reynt að fylla upp í það tómarúm. Katrín veltir því m.a. upp hvort miða eigi barnabókaumfjöllun að börnum eða fullorðnum.
Hádegishlé
Hugleiðingar um íslenskar og norrænar barna- og unglingabókmenntir
Sigurður Ólafsson, framkvæmdastjóri Vestnorræna ráðsins.
Norrænu menningarmálaráðherrarnir sammældust um það árið 2012 að koma á Barna- og unglingabókmenntaverðlaunum Norðurlandaráðs. Á sama tíma voru framlög til norrænna barna- og unglingabókmenntaverkefna stóraukin. Hefur þetta skilað auknu starfi og áhuga á samtímabókmenntum fyrir börn og ungmenni hér og á hinum Norðurlöndunum?
Bara myndir?
Ragnheiður Gestsdóttir, rit- og myndhöfundur.
Heimur nútímabarna er fullur af myndum. Myndir sem beint er að þeim eru alls staðar, og auðvitað líka í bókunum þeirra. En hvernig eru þær? Eru það myndir sem fæða og fræða eða eru þær fyrst og fremst froða? Og skiptir það yfirleitt einhverju máli ef þær selja bókina og fá börn til að lesa texta?
Fundarstjóri: Maríanna Clara Lúthersdóttir, leikkona og bókmenntafræðingur
Að ráðstefnunni standa: Borgarbókasafnið, Upplýsing, IBBY á Íslandi, SÍUNG, Félag fagfólks á skólasöfnum og SFS-skólaþjónusta.
Höfundur myndefnis: Bergrún Íris Sævarsdóttir
Nánari upplýsingar veita:
Þorbjörg Karlsdóttir, verkefnastjóri Borgarbókasafnsins
thorbjorg.karlsdottir@reykjavik.is
s. 411 6100
Bergrún Íris Sævarsdóttir, rit- og myndhöfundur
bergruniris@gmail.com
s. 698 1985
The post „Þetta er bara barnabók“ ráðstefna um barna- og unglingabókmenntir appeared first on sím.