Miðvikudaginn 4. júlí kl. 18.00 – 21.00 opnar sýningin Afskekkt í sýningarrými
Seguls 67 á Siglufirði. Sýningin er opin daglega kl. 14.00 – 18.00 á
Strandmenningarhátíðinni til 8. júlí.
Listamennirnir sem taka þátt í sýningunni Afskekkt eru allir búsettir, alfarið eða að hluta í Fjallabyggð, og er áhugavert að stefna þeim saman til sýningar á Strandmenningarhátíð.
Listamennirnir eru: Örlygur Kristfinnsson, Brynja Baldursdóttir, Helena
Hansdóttir Aspelund, Aðalheiður S. Eysteinsdóttir, Bergþór Morthens, ,
Hrafnhildur Ýr Denke, Brák Jónsdóttir, J Pasila, Arnar Ómarsson, Ólöf Helga
Helgadóttir, Helena Stefánsdóttir, Arnar Steinn Friðbjarnarson, Eva
Sigurðardóttir, Hólmfríður Vídalín Arngrímsdóttir, Garún, Bára Kristín
Skúladóttir.
Afskekkt
Að morgni hátíðardags fara vegaverkamenn á fánum skreyttu fjórhjóli um bæinn
og mála sebradýr þvert á akbrautir. Íbúar Fjallabyggðar safnast saman til
ræðuhalda, kaffidrykkju og skemmtana. Fólk er uppáklætt og lætur napran
norðan vindinn ekki hafa áhrif á hátíðarskapið. Enn snjóar í fjöll, enda erum við
stödd í einni af nyrstu byggðum Íslands. Í dag er heldur rólegra yfir Siglufirði en
Ólafsfirði þar sem hátíðardagskráin fer fram að mestu. Kötturinn Lóa hirðir ekki
um sebrarendurnar og lallar letilega skáhallt yfir Túngötuna. Fjölskyldur aka
saman um bæinn og kíkja inn á sýningar og söfn. Hér veit fólk að
einstaklingsframtakið er lífsnauðsynlegt sem og samvinna og samhugur í öllum
málum. Það hefur sýnt sig að það munar um hverja manneskju og hverja þá
skapandi hugsun sem kemur góðu til leiðar. Frumkrafturinn á þessum afskekkta
stað stafar frá ólgandi Atlantshafinu, frá stórbrotnum fjallahringnum sem
umvefur allt, með norðanstormi og sunnanvindum. Mannlífið er í takti við
náttúruna og vitundina um að hér er fegurðin fegurst og drunginn dekkstur.
Aðalheiður S. Eysteinsdóttir, sýningarstjóri.
The post Afskekkt, Samsýning í Segli 67 á Siglufirði appeared first on sím.