Quantcast
Channel: sím
Viewing all articles
Browse latest Browse all 4356

Hrafnkell Sigurðsson opnar í Hvefisgalleríi

$
0
0

Hrafnkell Sigurðsson opnar sína fyrstu einkasýningu í Hverfisgalleríi næstkomandi laugardag, 26. maí kl. 16.00. Forsenda verkanna á sýningunni, sem ber titilinn Upplausn/Resolution, hófst í óljósri hugmynd, tilfinningu sem var allt í senn óræð, dimm og djúp. Tilfinningin tengdist auðum fleti, einhvers konar prenti.

Í verkunum á sýningunni er einn myndhluti eða pixel stækkaður úr ljósmynd af himninum sem tekin er djúpt út í geim úr Hubble sjónaukanum. Fyrir valinu verður þekkt mynd af vetrarbrautum eins og þær voru fyrir nokkrum milljörðum ára. Gamalt ljós, ljósið sem liggur á bakvið mynstrið og litina. Autt svæði á milli vetrarbrautanna er stækkað upp til að píra inn í svartan flöt í himinhvolfinu.

“Ég reyndi að vera opinn fyrir öllu sem gerðist og lét oft mistök og tilviljanir leiða mig áfram. Ég var undir niðri alltaf að vona að þessi verk yrðu geometrískar abstraksjónir, en kannski má greina þau í skala sem sýnir ferðalag frá harðlínu yfir í lífrænu. Á einhverjum stað fannst mér ég kominn nálægt sjálfri sköpuninni, þar sem heimur skáldskaparins er samsíða lögmálum raunheimsins.

Mögulega fjalla verkin að einhverju leyti um mig sjálfan og þá leið sem ég valdi. Ferlið gerði kröfur um heilindi sem ég skynjaði mjög sterkt og reyndist eini valkosturinn. Ferð innfyrir ljóshvelið, í gegnum rafgasið, þar fór aðeins skáldskapurinn og viljinn í gegn. Ég sætti mig við að verkefnið sé klárað með þessum myndum.”

Hrafnkell Sigurðsson (1963) fæddist í Reykjavík og lærði þar, áður en hann fluttist erlendis til náms, fyrst til Maastricht í Hollandi og svo til London árið 1993. Hrafnkell lauk MFA-gráðu við Goldsmith‘s College árið 2002 og árið 2007 hlaut hann hin virtu Íslensku sjónlistarverðlaun. Hrafnkell hefur nýtt sér ljósmyndun við gerð verka sinna en hann hefur einnig nýtt ýmisa aðra miðla á borð við myndbönd, skúlptúra og innsetningar. Mörg ljósmyndaverka Hranfkels eru seríur sem fjalla um hversdagsleg málefni og hreyfa við skynjun áhorfandans með persónulegum tengingum. Tærar myndir hans fela í sér hefðir málaralistar og minna áhorfandann á lagskiptan raunveruleikann á bak við myndræna fleti.

Mynd: HRAFNKELL SIGURÐSSON, Skuggi, 2018, silkiþrykk, 105x160cm.

The post Hrafnkell Sigurðsson opnar í Hvefisgalleríi appeared first on sím.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 4356