Quantcast
Channel: sím
Viewing all articles
Browse latest Browse all 4356

Ég sagði það áður en þú gast sagt það

$
0
0

Myndlistarhópurinn IYFAC opnar sýninguna Ég sagði það áður en þú gast sagt það í Gallerí Gróttu kl. 19.00 þann 7. september næstkomandi. Sýnendur eru Halla Birgisdóttir, Ragnheiður Harpa Leifsdóttir, Ragnheiður Maísól Sturludóttir, Sigrún Hlín Sigurðardóttir og Steinunn Lilja Emilsdóttir. Verkin á sýningunni eru unnin út frá vangaveltum um þungann og merkinguna í hversdagslegum hlutum og djúpstæða þörf fyrir að átta sig á öllu því sem smátt er í von um að fá botn í hið stóra. Gjörningur verður fluttur við opnunina og einnig verður boðið upp á léttar veitingar. Sýningin mun standa yfir í mánuð og eru allir velkomnir.

IYFAC stendur fyrir International Young Female Artists Club. Við erum reyndar ekki mjög alþjóðlegar því allar erum við íslenskar. Eins erum við ekkert sérlega ungar (þótt okkur líði reyndar alltaf eins og 23 ára). Allar lítum við á okkur sem listrænar en fæstar komast upp með að vinna bara við list og höfum önnur starfsheiti. Svo er matsatriði hvort að hópinn mætti flokka sem klúbb. En við erum allar kvenkyns, þú getur verið viss um það. Sýningin okkar heitir Ég sagði það áður en þú gast sagt það sem vísar í þá tilhneigingu kvenna að reyna að finna út hvaða gagnrýni þær muni fá og afsaka sig fyrirfram. Nákvæmlega eins og við gerðum í þessum texta.

 

Um okkur:

Halla Birgisdóttir býr og starfar í Reykjavík. Hún er útskrifuð frá myndlistardeild Listaháskóla Íslands og hefur síðan þá tekið þátt í fjölmörgum samsýningum sem og haldið einkasýningar vítt um landið. Halla notar teikningar og texta til þess að skapa brotakennd frásagnarrými sem birtast áhorfendum síðan sem innsetningar, bókverk, veggteikningar, textíl-teikningar og kvik-teikningar. Hún kallar sig myndskáld. http://www.hallabirgisdottir.org

Ragnheiður Harpa Leifsdóttir er sviðshöfundur. Hún lauk BA-námi úr Listaháskóla Íslands árið 2011 og MA-námi úr Hí í ritlist. Hún hefur starfað á ýmsum sviðum innan leikhúss og myndlistar, samið, sett upp og tekið þátt í fjölda gjörninga, sýninga og unnið innsetningar bæði á Íslandi og erlendis.

Ragnheiður Maísól Sturludóttir lauk BA-gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands og hefur tekið þátt í mörgum samsýningum síðan. Hún er einnig meðlimur í Sirkus Íslands og Reykjavík Kabarett. Hún vinnur á mörkum myndlistar og sviðslistar og fjalla verkin hennar um töfrana í hversdeginum og mannlegri hegðun.  https://www.behance.net/maisol

Sigrún Hlín Sigurðardóttir er myndlistarkona og hefur unnið með bæði textíl og texta í verkum sínum, meðal annars í innsetningum, leikhúsi og útvarpi. Hún lauk BA-prófi í myndlist frá Listaháskóla Íslands og í íslensku frá Háskóla Íslands og lagði þar að auki stund á nám í textílhönnun við Myndlistaskólann í Reykjavík.

Steinunn Lilja Emilsdóttir er með BA-próf í guðfræði og MA-próf í ritlist frá Háskóla Íslands og BA-próf í myndlist frá Listaháskóla Íslands. Hún hefur tekið þátt í sýningum bæði sem listamaður og sýningarstjóri. Skrif eftir hana hafa birst í ýmsum tímaritum og safnritum. Hún leggur áherslu á texta í list sinni, bæði í verkunum sjálfum og sem innblástur.

 

 

The post Ég sagði það áður en þú gast sagt það appeared first on sím.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 4356