Quantcast
Channel: sím
Viewing all articles
Browse latest Browse all 4356

ENGROS; Skúlptúr á Grönttorvet í Kaupmannahöfn

$
0
0

Sýningin Engros leggur nú undir sig svæðið Grönttorvet í Valby, Kaupmannahöfn.

ENGROS er að frumkvæði listamannahópanna PIRPA og SKULPTURI.

Þóra Sigurðardóttir og Sólveig Aðalsteinsdóttir eru þáttakendur í sýningunni ENGROS ásamt fjölda danskra myndhöggvara.

Sýningin opnar þann 19 maí og stendur til 24 . júní, 2017.

Svæðið Grönttorvet er nú í miklu umbreytingaferli.  Þar sem áður var  lífleg atvinnustarfsemi á gríðarstóru svæði með grænmetis -heildsölumarkaði í stórum skemmum  hefur verið skipulögð íbúðabyggð og er nú þegar hafin bygging íbúðahúsnæðis. Byggingar grænmetismarkaðanna standa nú að mestu tómar  eða hafa verið rifnar niður og byggingarnar nýju rísa upp allt um kring með ótrúlegum hraða. Umhverfis sýningarsvæðið eru stórir hraukar af niðurbrotnum steinsteypuveggjum og malbiki – byggingarkranarnir vofa yfir.  Næstu tvö árin mun þó hluti svæðisins fá að standa og verður vettvangur tímabundinnar menningar og listastarfsemi.

Sólveig sýnir 4 ljósmyndir sem fanga litina umhverfis grænmetismarkaðinn. Ljósmyndirnar  eru prentaðar á efni í stærðinni 170 x 110  sem eru festar á stangir utandyra, blakta þar og þeytast til þegar flutingabílar keyra hjá.

Þóra hefur valið sér að vinna út frá hringstiga innandyra í rými sem er 2.95m x 2.80m x 8m. Verkið fjallar um stigann sem fyrirbæri í rými, með veggteikningum og prenti.

SKULPTURI er hópur 8 myndhöggvara í Kaupmannahöfn sem með margvíslegum hætti hefur skipulagt sýningarverkefni sem snúast um að endurskilgreina svæði, listaverk og rými.

SKULPTURI hefur með þessari sýningu á Grönttorvet í Kaupmannahöfn, komið í framkvæmd hugmynd sem um skeið hefur blundað meðal þeirra myndlistamanna sem standa að SKULPTURI, að standa fyrir stórri sýningu, sem er eins konar yfirlýsing (manifest) um margvíslega möguleika skúlptúrsins/rýmisverka, þvert á kynslóðir myndlistamanna.

PIRPA er sýningarrými á Grönttorvet  sem myndlistamennirnir Cai Ulrich von Platen og Camilla Nörgaard reka. Cai Ulrich var boðið að taka þátt í sýningunni Dalir og hólar á Vesturlandi 2012 og þá varð til hugmyndin um að yfirfæra Dalir og hóla-hugmyndina inn á svæði Grönttorvet.

Þessar tvær hugmyndir PIRPA og SKULPTURI féllu vel hvor að annarri og urðu að sýningunni ENGROS.

Þáttakendur sýningarinnar ENGROS eru hátt í 50 myndhöggvarar af öllum kynslóðum samtímans og má meðal annarra nefna myndlistamennina Ellen Hyllemose, Jörgen Carlo Larsen, Finn Reinbothe, Jytte Höy, Marianne Jörgensen, Nanna Abell, Christian Skjödt, Amitai Romm.

Framlög Þóru og Sólveigar eru studd af Myndlistarsjóði, Muggi og Letterstedtska sjóðnum.

Lesa má nánar um verkefnið á vefslóðinni https://www.idoart.dk/kalender/engros-skulpturudstilling-paa-groenttorvet-i-valby

The post ENGROS; Skúlptúr á Grönttorvet í Kaupmannahöfn appeared first on sím.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 4356