Sýningin Þá stendur nú yfir í Gerðarsafni en hún opnaði sem hluti alþjóðlegu listahátíðarinnar Cycle sem stóð yfir 27.-30. október. Á sýningunni eru verk íslenskra og erlendra listamanna, sem fela í sér vísanir í sameiginleg einkenni tónlistar og myndlistar. Í verkunum er tíminn í forgrunni með sífelldum endurtekningum, framtíðarspám og fortíðarminni.
Á laugardaginn verður gjörningur David Levine Sepulchral City flutt í Gerðarsafni, Bókasafni Kópavogs og Náttúrufræðistofu Kópavogs milli kl. 13-17. Verkið er margendurtekinn flutningur á texta Joseph Conrad úr Heart of Darkness frá 1898, sem er sár gagnrýni á nýlendustefnu Vesturlanda.
Í sýningartexta sínum, reifar Eva Wilson sýningarstjóri samhengi verkanna:
„Aldrei eins eftir það aldrei alveg eins en það var ekkert nýtt“ segir C, ein af þremur röddum í leikriti Samuel Beckett, en við höfum fengið titil leikritsins (e. That Time) að láni í þann stutta tíma sem sýningin stendur yfir. Leiðarljós sýningarinnar Þá og Listahátíðarinnar Cycle sem er nú haldin í annað sinn, er rannsókn á tónlist í samhengi listar og listsköpunar – þar sem tónlist er tæki til að móta og stjórna tíma, að skilja tónlist sem leið til að móta og stjórna tíma. Tónlist er einungis til á meðan hún er spiluð: tilvist hennar reiðir sig á endurtekningar og ítrekanir, bæði í því ferli sem æfingar og tónleikar fela í sér, en einnig þegar hlustað er á tónlistina. Hver endurtekning er einstök í sjálfri sér, og í hverri ítrekun eru hlustandi og flytjandi ávarpaðir sem örlítið breyttar manneskjur.
Á sýningunni eru verk eftirfarandi listamanna:
Larry Achiampong & David Blandy. Margrét H. Blöndal. Caitlin Berrigan. Constant Dullaart. Adam Gibbons & boyleANDshaw. Hreinn Friðfinnsson, Beatrice Gibson, Ásdís Sif Gunnarsdóttir, Marguerite Humeau, Dorothy Iannone, Rachel de Joode, Kapwani Kiwanga, David Levine, Heather Phillipson, Johannes Paul Raether, SUPERFLEX, Vanessa Safavi, Alvaro Urbano og Kristín Anna Valtýsdóttir.
Gerðarsafn er opið kl. 11-17 þriðjudaga til sunnudaga. Garðskálinn er opinn á sömu tímum og býður upp á hádegisverð og kaffiveitingar.
Mynd: Hörður Sveinsson.
The post Sýningin Þá // Gjörningurinn Sepulchral City appeared first on sím.