Quantcast
Channel: sím
Viewing all articles
Browse latest Browse all 4356

Tilraunaverkefni SÍM 2017 –úthlutun

$
0
0

Stjórn SÍM fór af stað með tilraunaverkefni árið 2016 til tveggja ára. Verkefnið felst í að  SÍM veitir tveimur ungum félagsmönnum tækifæri á að dvelja ókeypis í  mánuð í gestavinnustofu SÍM í Berlín. Þeir fá einnig tækifæri til að segja frá dvöl sinni og listsköpun í STARA.

Frá árinu 2010 hefur SÍM haft Gestavinnustofu í Berlín á leigu fyrir félagsmenn SÍM. Tilgangur hennar er að gefa félagsmönnum tækifæri á að dvelja í stórborginni Berlín og vinna að list sinni. Gestavinnustofan er á fimmtu hæð í fjölbýlishúsi í Neue Bahnhofstrasse 27, í Friedrichshain í austurhluta Berlínar.

STARA er myndlistarit sem leitast við að efla umræðu og þekkingu á myndlist ásamt því að segja frá starfsemi SÍM. STARA kemur út á íslensku og ensku, blaðið höfðar jafnt til fagfólks sem og áhugafólks um myndlist. STARA mun koma út tvisar á árinu 2017 og verður prentað í 500 eintökum og dreift frítt.

Fyrr í haust úthlutaði SÍM þeim Heiðdísi Hólm Guðmundsdóttur og Loga Leó Gunnarssyni dvöl í gestavinnustofunni, þeim að kostnaðarlausu.

Heiðdís Hólm er (f. 1991) og lauk námi úr Myndlistarskólanum á Akureyri núna í vor 2016. Hún hefur tekið þátt í og staðið fyrir ýmsum verkefnum og sýningum bæði á meðan námi stóð og eftir útskrift. Má síðast nefna einkasýninguna Það kom ekkert í Kaktus, gjörningakvöldið Umbúðalaus á Listasumri á Akureyri og samsýninguna Meðvirkni í Harbinger. Heiðdís vinnur verk í blandaða miðla með áherslu á breytileika málverksins. Verkin vilja oft vera sjálfsævisöguleg, feminísk, um lífið, listina og letina.
heiddisholm.com

Logi Leó Gunnarsson (f. 1990) útskrifaðist frá myndlistardeild Listaháskóla Íslands vorið 2014. Upphafspunkturinn í verkum hans eru yfirleitt hljóð. Hann vinnur oft með hugmyndina um augnablik í skúlptúrum sínum og innsetningum. Í því felst oft að finna lykkju í hreyfingu skúlptúrana og einangra hana, gefa henni óskipta athygli, og finna í henni hið óvænta og einfalda. Nýlegar sýningar sem hann hefur tekið þátt í eru St. Hospitality Exhibition Series í Breed Art Studios í Amsterdam, Deep Inside: Fimmti alþjóðlegi tvíæringurinn fyrir unga myndlistarmenn í Moskvu og New Release: Cycle tónlistar- og myndlistarhátíð í Gerðarsafni. 

The post Tilraunaverkefni SÍM 2017 – úthlutun appeared first on sím.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 4356