Á laugardaginn kemur, 15. október kl 16.00, opnar einkasýning Sigtryggs Bjarna Baldvinssonar Mýrarskuggar í Hverfisgalleríi, en á sýningunni er að finna bæði olíumálverk og vatnslitamyndir sem vitna á áhrifaríkan hátt í dulúð og hljóðláta fegurð hins íslenska mýrlendis, litadýrðina og gróðurinn sem þar er að finna. Þetta er önnur einkasýning Sigtryggs hjá Hverfisgalleríi en verk hans hafa verið sýnd á einkasýningum og samsýningum á helstu söfnum hérlendis.
Viðfangsefnið á sýningunni Mýrarskuggar sækir Sigtryggur í votlendi norður í Héðinsfirði þar sem fjölskylda hans festi kaup á landskika. Þar hefur hann dvalið löngum stundum í huganum og eru skuggarnir sem vatnagróðurinn býr til ofan í mýrlendinu kveikjan að verkunum. Mýrarskuggar verða ljóðrænt náttúrufyrirbrigði – myrk augu – sem gefa sýn ofan í hinar mikilvægu en forsmáðu mýrar. Mýrarnar hafa nú öðlast óvænt hlutverk í baráttunni miklu við eina helstu ógn mannkyns, hlýnun jarðar. Skuggarnir kastast af votlendisgróðri á kvikum vatnsfleti mýranna og taka af því form. “Ég upplifi það hálfgerða þegnskylduvinnu að benda á þá duldu og dulmögnuðu fegurð sem í mýrunum býr því nú má segja að okkur beri skylda til að breyta uppþurrkuðum og misvel nýttum landspildum í sitt fyrra votlendisform og bæta þar með við lungu jarðarinnar,“ segir Sigtryggur.
Síðustu árin hefur Sigtryggur einbeitt sér að því að gera stökum náttúrufyrirbrigðum skil í málverki, vatnslitamyndum og ljósmyndum. Hann leitast við að draga fram eðlisþætti svo sem hljómfall og takt og myndgera þá síkviku mynsturgerð sem taka má eftir í laufskrúði, gróðurþekjum, vatnsflötum og straumkasti rennandi vatns. Mynsturnet sjávarlöðurs og „regluleg óregla“ ljósbrots sólar á haffleti hafa verið rannsóknarefni og byggingarstoðir málverka hans.
Sýningin Mýrarskuggar stendur til 25. nóvember.
Frekari upplýsingar má finna á síðu Hverfisgallerís: http://hverfisgalleri.is/artist/sigtryggur-bjarni-baldvinsson/
The post Mýrarskuggar í Hverfisgalleríi appeared first on sím.