Laugardaginn 30. janúar næstkomandi klukkan 15.00 opnar Helena Margrét Jónsdóttir einkasýningu í Hverfisgalleríi sem ber titilinn Draugur upp úr öðrum draug. Um er að ræða fyrstu sýningu þessarar ungu og efnilegu listakonu og samanstendur sýningin af 10 olíu- og akrýlmálverkum á striga. Myndefnið er sótt í hversdagsleikann og parað saman út frá sjónrænum og huglægum tengslum þess. Þau eru í senn persónuleg og almenn.
Gefum listamanninum orðið: „Ég er komin með svartan blett á tunguna og rauðvínsvarir. Gagnsæ, glær og klístruð en það festist ekkert við mig. Eins og draugur. Ég þræði fylltar lakkrísreimar í skóna, ég er löngu búin að týna hinum. Lakkrísinn klárast ekki og dagarnir renna áfram, rúllast hver á eftir öðrum, tunglið, stjörnurnar og sólin og við draugarnir og köngulóin á milli þeirra eins og marsipanfylling.“
Helena Margrét Jónsdóttir nam myndlist við Myndlistarskólann í Reykjavík, Konunglega Listaháskólann í Haag í Hollandi og útskrifaðist með BA gráðu í myndlist úr LHÍ árið 2019. Málverk hennar fjalla um hversdagsleikann á tímum þráðleysis og stafræns myndmáls.
Sýningin Draugur upp úr öðrum draug stendur frá 30. janúar til 13. mars.
Meðfylgjandi er sýningartexti, tvær myndir af verkum af sýningunni og mynd af listamanninum:
Mynd 1: Gegnblaut, 2020, akrýl og olía á striga_150x150cm.
Mynd 2: Frekar gott, 2021, akrýl og olía á striga_25x25cm.
Mynd 3: Mynd af listamanninum.
Sýningarskrá.
Frekari upplýsingar veita Sigríður L. Gunnarsdóttir í síma 864-9692 eða sigridur@hverfisgalleri.is og/eða Daria Andrews í 699-6949 eða daria@hverfisgalleri.is

The post HVERFISGALLERÍ: HELENA MARGRÉT JÓNSDÓTTIR – DRAUGUR UPP ÚR ÖÐRUM DRAUG appeared first on sím.