
Árni Már Erlingsson opnar sýninguna Formfast þann 21. nóvember í Gallery Port. Opnun sýningarinnar verður haldin frá 12:00 – 18:00 og passað verður upp á að fylgja sóttvarnareglum. Sýningin stendur til 3. desember og verður opið miðviku- til sunnudags frá 12:00 – 18:00.
Þetta er hans fyrsta einkasýning í Gallery Port og finnst honum mikilvægt að taka fyrir viðfangsefni sem hann hefur verið að þróa í öll þessi ár. Undirbúningur þessarar sýningar hefur staðið yfir í ár en segja má að drögin að henni hafi komið þegar hann og Sigurður Atli Sigurðsson voru með opna vinnustofu á LungA árið 2012.
Frá því á LungA hefur Árni leikið sér að hinum ýmsu formum en þó helst í skissubókinni eða stökum verkum, en aldrei verið tekið föstum tökum eins og í þessari sýningu. Allt frá formföstum verkum yfir í óræð form, skúlptúra og verk unnin með spartli og í prenti tekst Árni á við myndheim sem svo sannarlega margir myndlistarmenn hafa reynt við.
Árni Már stofnaði Gallery Port með þeim Skarphéðni Bergþórusyni og Þorvaldi Jónssyni árið 2016 og hafa þeir haldið úti hátt í 100 sýningum og viðburðum. Gallery Port er listamannarekið Gallery ásamt því eru með vinnustofur fyrir listamenn í sama húsi. Aðsókn í rýmið hefur farið fram úr öllum vonum, bæði af listamönnum sem vilja sýna, söfnurum og unnendum menningar. Því verður spennandi að sjá hvernig Formfast mun taka á sig mynd í sýningarsalnum.

FORMFAST 21.11.2020
Öllu sköpuðu er skipað form.
Form er lögun samkvæmt …
Og allt vill lagið hafa, atriðið á svið.
Mótað heimtir efnið formið.
Um sand: kassann og jafnvel hring: geggjun.
Að forma er að gera og gerð er sama og form.
Skæri áform aðgerð.
Form skapa lón.
Og vakir sem vita af sér.
Í minntu-mig-grænum breiðum.
Afbrigði af bragði, af efnunum í refnum.
(Og refnum í efnunum.)
Rörin strá. Skeiðin mörg. Lokin bunkum.
Ídýfum, í dýfum, ídeum, í lífum, í víðum geymum.
Formfast formast, formast formfast.
Einn – í stóru formi, takk.
SB
The post Gallery Port: Árni Már Erlingsson – Formfast appeared first on sím.