Laugardagur 22. febrúar kl. 16.00
Laugardaginn 22. febrúar næstkomandi opnar DANÍEL MAGNÚSSON sína fyrstu einkasýningu í Hverfisgalleríi og ber hún titilinn Transit. Á sýningunni eru ljósmyndaverk sem gerð eru á árunum 2010 til 2019 og líkir listamaðurinn verkunum sem slagverksdyn sem hefur stöðvast. Myndirnar eru úr gönguferðum Daníels og þannig verður gönguhraðinn hinn ráðandi taktur. Daníel velur hvern vinkil með það fyrir augum að hann fjalli á eins knappan hátt og hægt er um fyrirmyndina. Takmark listamannsins er þannig ávallt að velja staðsetninguna, fyllingu og byggingu – kompósisjón – svo naumt að frásögnin haldist innan „taktsins“ og að takturinn sé nægur til að frásögnin verði merkingarbær.

„Myndirnar eru ekki um atburð eða ástand beinlínis, þær eru án vísunar í fagurfræði á sama hátt og þær vísa ekki til sérstakrar og upphafinnar frásagnar. Markmiðið er frekar að upphefja veikt „baksuð“ í og þannig verða slagverkstaktur með frásögn. Ég hef stundum kallað þetta límið í samfellunni. Í myndunum ríkir því óvissuástand eða bilið milli þess að eitthvað hafi gerst og þess að eitthvað muni gerist. Sú mögulega eða ómögulega atburðarás er þó ekki endilega háð merkingunni því að hún gæti allt eins verið vísun í þennan skort. Markmiðið með þessum texta er fyrst og fremst að lýsa áreiti eða hvatningu að verkunum. Ástæða þess að ég nefni ásláttarhljóðfæri er einkum sú að þessi viðmiðun er nægjanleg. Ég vil að verkin mín orki eins og trommutaktur á kviðinn frekar en höfuðið.“
Daníel Magnússon útskrifaðist úr Myndlista – og handíðaskóla Íslands árið 1987 og vakti þá strax athygli fyrir áhugaverð verk þar sem íslensk menning var oftar en ekki til umfjöllunar. Hann er einkum þekktur fyrir skúlptúra og ljósmyndaverk en hefur jafnframt myndlistinni hannað og smíðað húsgögn og unnið leikmyndir fyrir leikhús og sýningar. Daníel á að baki annan tug einkasýninga ásamt fjölda samsýninga bæði innanlands og utan. Verk hans eru m.a. í eigu Listasafns Íslands, Reykjavíkurborgar, ýmissa ríkisstofnana, og einkaaðila bæði hérlendis og erlendis. Sýningin Transit stendur til 28. mars.

The post Hverfisgallerí: Sýningaropnun – DANÍEL MAGNÚSSON – TRANSIT appeared first on sím.