Kyn(ja)verur frá Kolbermoor, sykur og brauð í Anarkíu
Laugardaginn 14. nóvember kl. 15.00 verða opnaðar tvær nýjar myndlistarsýningar í Anarkíu í Kópavogi.
Í neðri salnum sýnir Jóhanna V. Þórhallsdóttir Kyn(ja)verur frá Kolbermoor. Þetta eru myndir sem Jóhanna hefur málað í Þýskalandi, en þar er hún í námi hjá Markúsi Lüpertz í Akademie der Bildenden Künste í Kolbermoor. Myndirnar eru af þýskum fyrirsætum sem skipta litum eins og kamelljón í regnskógi. Áður hefur Jóhanna m.a. sótt tíma í myndlist hjá Bjarna Sigurbjörnssyni, Söru Vilbergsdóttur og Ingibergi Magnússyni. Þetta er önnur einkasýning hennar.
Sýningin í efri salnum heitir Sykur & brauð og hefur að geyma ný málverk eftir Aðalstein Eyþórsson. Þar er um að ræða aðgengilegar abstraktmyndir, kolvetnaríkar og hvers manns hugljúfi eins og nafnið bendir til en þó kunna að leynast í þeim heilnæm trefjaefni ef að er gáð. Aðalsteinn hefur einkum sótt tilsögn í málaralist til Bjarna Sigurbjörnssonar og hefur áður sýnt verk sín í Hafnarfirði, Reykjavík og Kópavogi.
Aðalsteinn og Jóhanna eru bæði félagar í Anarkíu listasal. Sýningar þeirra standa til 6. desember.
Anarkía listasalur er til húsa í Hamraborg 3 í Kópavogi (aðkoma að norðanverðu frá Skeljabrekku/Hamrabrekku). Þar er opið alla daga nema mánudaga kl. 15–18.
The post Kyn(ja)verur frá Kolbermoor, sykur og brauð í Anarkíu appeared first on sím.