NÍNA SÆMUNDSSON – LISTIN Á HVÖRFUM 6.11. 2015 – 17.1. 2016
Sýning á verkum Nínu Sæmundsson í Listasafni Íslands opnar föstudaginn 6. nóvember kl. 18.
Nína Sæmundsson (1892–1965) var fyrsta íslenska konan sem gerði höggmyndalist að ævistarfi. Á sýningunni verður leitast við að gefa gestum sýn yfir alþjóðlegan listferil Nínu á tímum mikilla breytinga og tveggja heimsstyrjalda. Framan af hafði hún að leiðarljósi hina klassísku hefð, sem hún kynntist á námsárunum í Kaupmannahöfn, en þar er hinn fullkomni og heilbrigði mannslíkami upphafinn og sýndur í frjálsri hreyfingu eða slökun og áberandi eru goðsagnaminni með konuna í forgrunni með kennitákn sín. Kynnt verða helstu lykilverk hennar, alveg frá námsárunum í Kaupmannahöfn, svo sem Sofandi drengur og Rökkur sem hún vann í Rómaborg, auk verðlaunaverksins Móðurástar frá Parísarárunum, og allt til tímans í Kaliforníu þar sem nýir áhrifavaldar koma fram í efniviði og túlkun undir áhrifum frá list frumbyggja við Kyrrahafið, líkt og sjá má í verki hennar af Njáli á Bergþórshvoli.
Sama dag kemur út bókin Nína S.um feril hennar og ótrúlega viðburðarríka ævi. Útgefandi er Crymogea og höfundur er sýningarstjórinn Hrafnhildur Schram
Nína Sæmundsson fæddist inn í bændasamfélag 19. aldar þar sem fáar konur í alþýðustétt fengu tækifæri til að ráða lífi sínu og láta draumana rætast en upphafið að ferli hennar varð ævintýri líkast. Á þriðja áratug síðustu aldar bjó hún í helstu listamiðstöðvum hins vestræna heims, í Róm, París og New York en saga hennar er öðrum þræði saga mikilla sigra, en um leið harmrænna örlaga sem höfðu mikil áhrif á líf hennar. Nína bjó frá upphafi yfir miklum viljastyrk og brennandi áhuga á listum og þróaði sinn klassíska stíl, sem hún var trú lengi framan af ferlinum, en þar sameinar hún hið stórbrotna og hið innilega. Hin uppreista manneskja varð eitt af helstu þemum hennar, ásamt andlitsmyndum, sem hún gerði að sérgrein sinni.
The post Sýningaropnun í Listasafni Íslands: Nína Sæmundsson – Listin á hvörfum appeared first on sím.