Quantcast
Channel: sím
Viewing all articles
Browse latest Browse all 4356

Sýningaropnun – Eiríkur Smith

$
0
0

Á eintali við tilverunna – Eiríkur Smith
Sýningaropnun – Laugardag 7. nóvember kl. 15

Laugardaginn 7. nóvember kl. 15 verður opnuð í Hafnarborg sýning á verkum listmálarans Eiríks Smith með vatnslita- og olíumálverkum frá árunum 1983 – 2008. Á sýningunni sem ber heitið Á eintali við tilveruna er leitast við að kynna þetta tímabil á ferli listamannsins. Á sýningunni má sjá bæði hlutbundin og óhlutbundin verk þar sem hann gerir tilraunir með form og liti. Verkin bera það með sér að hér er þroskaður listamaður á ferð þó jafnframt megi sjá að Eiríkur heldur áfram þeirri listrænu leit sem ætíð hefur einkennt hann.

Ferill Eiríks Smith (f. 1925) er í senn langur og margbreytilegur. Hann hefur tekist á við málverkið sem tjáningarform þar sem maðurinn er oft í forgrunni en landið og mannanna verk mynda magnþrungna umgjörð. Nálgun hans hefur tekið miklum breytingum í takt við tíðarandann en einnig vegna þess að listamaðurinn hefur meðvitað leitað á nýjar slóðir.

Á eintali við tilveruna er fimmta og síðasta sýningin í sýningarröð sem Hafnarborg hefur staðið fyrir síðan árið 2010 þar sem kynnt hafa verið ólík tímabil á löngum og fjölþættum ferli Eiríks og er sýningunni fylgt úr hlaði með útgáfu veglegrar sýningarskrár sem gerir skil öllum fimm sýningunum og ferli listamannsins Eiríks Smith.

Eftir Eirík liggur gríðarlegur fjöldi verka og eru rúmlega 400 verk varðveitt í Hafnarborg en listamaðurinn færði safninu veglega listaverkagjöf árið 1990. Jafnt og þétt hefur verið bætt við safneignina með það að markmiði að í Hafnarborg sé varðveitt safn verka sem gefur góða yfirsýn yfir feril listamannsins.

Sýningarstjóri sýningarinnar er Ólöf K. Sigurðardóttir fyrrum forstöðumaður Hafnarborgar. Sjá nánar um sýninguna hér.

 

Sunnudaginn 29. nóvember kl. 15 verður boðið upp á sýningarstjóraspjall í tengslum við sýninguna.

The post Sýningaropnun – Eiríkur Smith appeared first on sím.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 4356