Föstudaginn 6. nóvember kl. 17.00 verður opnuð ný sýning í SÍM salnum. Á sýningunni verða einlit verk unnin með vatnsþynntu bleki á vatnslitapappír. eftir Diddu H. Leaman, en verkin eru úrvinnsla fjögurra mánaða dvalar í Barselóna vorið 2015. Gerð verkanna minnir höfund þeirra á stíflugerð sem barn, þegar skurðir voru grafnir í jörðina og fylgst með hvernig vatnið braut sér leið.
Lífræn form myndast þar sem mest vökvamagn hefur legið á pappírnum og þornað hægt, og skara rákirnar sem mótar fyrir í síendurteknum bleklögum.
Didda stundaði myndlistarnám á Íslandi, Finnlandi og Bretlandi. Síðar bætti hún við sig meistaragráðu í kennslufræði sjónlista í LHÍ, auk námskeiðis í sjónlýsingum, sem hún hefur jafnframt starfað við.
Didda hefur haldið fjölda sýninga á Íslandi og erlendis.
Sýningin stendur frá 6. – 24. nóvember.
SÍM salurinn er opinn frá 10-16 alla virka daga.
Opnun sýningarinnar verður milli 17 og 19, föstudaginn 6. nóvember.
Allir eru hjartanlega velkomnir.
The post Sýningin Síendurtekin lög í SÍMsalnum, Hafnarstræti 16. appeared first on sím.