Það verður öllu tjaldað til á Barnamenningarhátíð í Listasafni Reykjavíkur í ár.
Grunnskólanemar setja upp myndlistarsýningar í Hafnarhúsi og á Kjarvalsstöðum og verður hægt að fylgjast með vinnu krakkanna í Hafnarhúsi og skoða afraksturinn á hátíðinni. Boðið verður upp á tilraunasmiðju í Hafnarhúsi, útilistaverkasmiðju á Kjarvalsstöðum og hugleiðsluupplifun í Ásmundarsafni. Einnig verður farið í hjólatúraleiðsögn um Breiðholtið þar sem farið verður á milli útilistaverka.
Það er ókeypis fyrir fullorðna í fylgd með börnum í öllum húsum Listasafns Reykjavíkur.

HAFNARHÚS
9.–12. apríl kl. 10-17.00
Er myndlist stærðfræði? – Er stærðfræði myndlist?
Listasafn Reykjavíkur og Landakotsskóli
Nemendur Landakotsskóla heimsækja safnið og vinna með tengsl stærðfræði og myndlistar út frá sýningu Önnu Guðjónsdóttur í Hafnarhúsi, vikuna sem Barnamenningarhátíð stendur.
Nemendur upplifa verk Önnu – innsetningu sem byggir á samspili hins tvívíða, málaðs flatar og þrívíðs, raunverulegs rýmis. Afrakstur vinnunnar þróast út vikuna og myndar saman listaverk sem verður til sýnis á safninu á hátíðinni.
Föstudag 12. apríl kl. 13-14.00
Opnun á sýningu Landakotsskóla í fjölnotarými Hafnarhúss
13.–14. apríl kl. 10-17.00
Sýning á afrakstri vinnu heimsókna nemenda úr Landakotsskóla
Sýningin er opin á opnunartíma safnsins á meðan á Barnamenningarhátíð stendur.
9.–14. apríl kl. 10-17.00
Æskuverk Errós – 3. hæð
Á meðan á Barnamenningarhátíð stendur verður einstök sýning á æskuverkum Errós á þriðju hæð í Hafnarhúsi. Þar má sjá bæði teiknaðar og málaðar myndir hins unga Errós frá því að hann var 8 og bjó á Kirkjubæjarklaustri, fram á unglingsár.
Laugardag 13. apríl kl. 13-15.00
Látum okkur sjá: könnum – skoðum – leikum – klessum – reisum
Opin tilraunasmiðja þar sem Guðný Ragnarsdóttir sjónlistakennari og myndlistarmaður leiðbeinir gestum Barnamenningarhátíðar við að kanna form og efnivið og við að reisa, festa og líma saman skúlptúra í anda sýninganna í Hafnarhúsi.
KJARVALSSTAÐIR
9.–14. apríl
Hljóðafl – Hreyfiafl
Samsýning Vogaskóla, Sæmundarskóla og Kelduskóla Víkur
Sýningin Hljóðafl – Hreyfiafl er samsýning þriggja skóla þvert á hverfi í Reykjavík; Vogaskóla í Vogahverfi, Sæmundarskóla í Grafarholti og Kelduskóla Vík í Grafarvogi.
Inntak sýningarinnar byggir á orkunni í umhverfi okkar og hvernig hún hreyfir við skynjun okkar, sjónrænt, með hljóði og hreyfingu. Umfjöllunarefni sýningarinnar og inntak verkanna er að vera í samtali við umhverfið. Upplifun sýningargesta er einstaklingsbundin og gagnvirk því að gestirnir verða hluti þess afls sem hreyfir við verkunum.
Hljóðlistamaðurinn Finnbogi Pétursson heimsótti nemendur í skólana og ræddi verk sín og verk nemenda í undirbúningsvinnunni en Finnbogi hefur unnið á einstakan hátt með skynjun og áhrif hljóðs á efni eins og vatn og ljós í verkum sínum.
Umsjón með vinnu nemenda höfðu myndlistarkennararnir Guðrún Gísladóttir í Vogaskóla, Vilhelmína Thorarensen í Sæmundarskóla, Vilma Björk Ágústsdóttir í Kelduskóla – Vík.
Uppsetning sýningarinnar var unnin í samstarfi við safnið.
Sýningin er opin á opnunartíma safnsins á meðan Barnamenningarhátíð stendur yfir.
Þriðjudag 9. apríl kl. 17-19.00
Opnun sýninganna Hjóðafl – Hreyfiafl og Dýr og furðuverur
9.–14. apríl
Dýr og furðuverur: Barnalistsýning Dalskóla
Nemendur Dalskóla sýna margvíslegar furðuverur á Listasafni Reykjavíkur Kjarvalsstöðum – stórar, smáar, góðar eða grimmar. Komdu ef þú þorir!
Umsjón með vinnu nemenda hafði Edda Ýr Garðarsdóttir myndlistarkennari.
Uppsetning sýningar er unnin í samstarfi við safnið.
Sýningin er opin á opnunartíma safnsins á á meðan á Barnamenningarhátíð stendur.
Sunnudag 13. apríl kl. 12-15.00
Látum okkur sjá: Útiandlit – skúlptúrsmiðja
Halldór Ragnarsson myndlistarmaður leiðir útilistaverkasmiðju á Barnamenningarhátíð á Kjarvalsstöðum, þar sem öllum krökkum er velkomið að taka þátt í að búa til áhugavert andlitsútilistaverk.
Í ár er ár útilistaverka hjá Listasafni Reykjavíkur. Smiðjan verður að öllum líkindum úti.
ÁSMUNDARSAFN
Sunnudag 14. apríl kl. 13-15.00
Látum okkur sjá: Kira Kira – Prisma ljóð
Tónskáldið Kira Kira leiðir ljósríka og róandi hugleiðsluupplifun innan um kraftana í verkum Ásmundar Sveinssonar í sýningunni „Undir sama himni“ fyrir börn og fjölskyldur, með tónum, samtali og spunamöntrum. Gestir fá tækifæri til að skynja skúlptúrsýningu Ásmundar á nýjan og notalegan hátt – í fjölbreyttri upplifun myndlistar, tónlistar og samveru. Töfrandi samverustund fyrir alla fjölskylduna.
ÆVINTÝRAHÖLLIN Í GERÐUBERGI
Laugardag 13. apríl kl. 11.00
Fjölskylduhjólaævintýri með skemmtilegri leiðsögn um útilistaverk í Breiðholti
Listasafn Reykjavíkur býður fjölskyldum upp á skemmtilega hjólatúraleiðsögn á Barnamenningarhátíð í samstarfi við Hjólafærni á Íslandi. Hjólað verður frá Ævintýrahöllinni í Gerðubergi kl. 11.00 um útilistaverkin í Breiðholti, en árið 2019 er ár útilistaverka hjá Listasafni Reykjavíkur.
The post Fjölbreytt dagskrá í Listasafni Reykjavíkur á Barnamenningarhátíð 2019 appeared first on sím.