Myndlistarfélagið á Akureyri auglýsir eftir umsóknum um sýningar í Mjólkurbúðinni, sal Myndlistarfélagsins. Salurinn er staðsettur í Listagilinu á Akureyri á jarðhæð Listasafnsins.
Um er að ræða 35 fermetra sýningarrými með stórum gluggum sem vísa að Listagilinu, auk 25 fermetra bakrýmis. Hver sýning stendur yfir í 2 vikur og miðað er við að opið sé um helgar kl 14-17 og auk þess er hverjum frjálst að hafa opið þess utan.
Umsóknir skal senda til myndlistarfelagak@gmail.com , fyrirspurnir er einnig hægt að senda á https://www.facebook.com/salur.myndlistarfelagsins/
Leigutaki/listamaður sér sjálfur um yfirsetu yfir sýningu
Gjaldið er 25.000 krónur fyrir tvær helgar/vikur en 15.000 krónur fyrir félagsmenn. Gjaldið greiðist þegar bókun á sal er staðfest.
Leigutaki/listamaður tekur við sýningarsalnum seinnipart miðvikudags fyrir opnun sýningar í samráði við sýningarnefnd, tilbúnum til upphengingar. Sýningarnefnd veitir upplýsingar um sýningarrými og uppsetningu, hvar hlutir eru geymdir sem nota þarf o.s.frv.
Leigutaki/listamaður er ábyrgur fyrir öllum kostnaði í tengslum við sýninguna, veitingum, prentun og póstlagningu boðskorta, sýningarská, veggspjaldi, auglýsingaspjaldi fyrir auglýsingaskilti sem og öðru sem honum þykir þurfa. Lógó Myndlistarfélgsins skal koma fram og er það sýningarnefnd sem útvegar viðkomandi það.
Leigutaki/listamaður skilar salnum hreinum og tilbúnum til næstu upphengingar ekki síðar en á þriðjudagskvöldi við lok sýningartímabils. Ef misbrestur verður á þessu mun salurinn verða lagfærður á kostnað leikutaka. Leigutaki hefur aðgang að geymslu félagsins þar sem skúringagræjur eru geymdar ásamt öðrum eignum félagsins. Snyrtileg umgengni er áskilin og passa þarf að rými sé ávallt læst þegar það er ekki í notkun. Eins hefur viðkomandi aðgang að salerni innar á gangi. Leigutaki tekur ábyrgð á eigum félagsins sem hann notar s.s. skjávarpa, tjaldi fyrir skjávarpa og öðrum minni munum sem félagið á.
Leigutaki/listamaður skal senda upplýsingar, texta og mynd, fyrir viðburð á facebook eigi síðar en mánudag fyrir opnun og félagið sér um að deila viðburði á Facebook. Listamaður sér sjálfur um fréttatilkynningar til fjölmiðla.
Verk sem eru á sýningu viðkomandi listamanns eru ekki tryggð né á ábyrgð Myndlistarfélagsins. Ef leigutaki kýs að hafa verk sín tryggð verður hann að tryggja þau sjálfur.
Ef leigutaki/listamaður hættir við sýningu innan tveggja mánaða áður en sýning hans á að hefjast, ber honum að greiða fullt verð fyrir sýningarsalinn, ef ekki fæst annar leigutaki í hans stað.
The post Myndlistarfélagið Akureyri auglýsir eftir umsóknum appeared first on sím.