Benedikt Gabríel Valgarður Gunnarsson, listmálari og dósent í myndlist við KHÍ, fæddist 14. júlí 1929 á Suðureyri við Súgandafjörð. Hann lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 22. nóvember sl.
Benedikt stundaði nám við Handíða- og myndlistarskólann í Reykjavík 1945-48, við Listaháskólann í Kaupmannahöfn (Det kongelige akademi for de skønne kunster) og við teikniskóla P. Rostrup Bøyesens, listmálara á Statens museum for kunst í Kaupmannahöfn 1948-50, var við nám og listsköpun í París 1950-53, m.a. við Académie de la Grande Chaumiére, og í Madrid 1953-54, og stundaði myndfræðilegar rannsóknir við Louvre-listasafnið i París og Prado-listasafnið í Madrid.
Þá lauk hann myndlistarkennaraprófi frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1964.
Benedikt var kennari við Myndlistarskóla Vestmannaeyja 1958-59, við Gagnfræðaskólann við Lindargötu í Reykjavík 1960-62, við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1959-68 og við Kennaraskóla Íslands,síðan Kennaraháskóla Íslands frá 1965. Hann var lektor við KHÍ frá 1977 og dósent þar frá 1998. Kenndi myndlist við Listafélag MR 1965-1966 og Listafélag VR 1985-1987.
Benedikt hélt á þriðja tug einkasýninga hérlendis og eina í París, í La galerie Saint-Placide 1953. Hann tók þátt í tuttugu og þremur samsýningum víða um heim, m.a. á öllum Norðurlöndunun, Þýskalandi, Frakklandi, Ítalíu, Rússlandi, Kanada, Bandaríkjunum, Bretlandi og í Ástralíu og fjölda samsýninga á Íslandi.
Málverk eftir Benedikt eru m.a. í Listasafni Íslands, Listasafni Kópavogs, Listasafni ASÍ, mörgum bæjarlistasöfnum og í fjölmörgum einkasöfnum og stofnunum. Ennfremur verk í erlendum söfnum, m.a. í Kanada, Bandaríkjunum, Sviss, Þýskalandi, Mexíkó, Kólumbíu, Danmörku, Svíþjóð og í Ben Gurion-háskólanum í Ísrael.
Hann hefur gert stórar veggmyndir og steinda glugga í nokkrar opinberar byggingar hérlendis, s.s. í Grunnskólann á Hofsósi og Vík í Mýrdal, í Héraðsskólann að Skógum, Keflavíkurkirkju, Hábæjarkirkju í Þykkvabæ, Fáskrúðarbakkakirkju, Suðureyrarkirkju og í Háteigskirkju í Reykjavík.
Benedikt sat í stjórn FÍM og í stjórn Norræna listbandalagsins 1958-60 og í sýningarnefnd FÍM 1965-72. Hann var prófdómari við MHÍ 1975-77. Fór til Rússlands sem fulltrúi og umsjónarmaður sýningar ungra íslenskra myndlistarmanna, á alþjóðlegri listsýningu í Moskvu 1957. Hann myndskreytti og gerði kápur á fjölda bóka og tímarita, m.a. listtímaritið Birting. Benedikt var heiðurslistamaður Kópavogs 2002.
The post Benedikt Gunnarsson listmálari er látinn appeared first on sím.