Sýningin „Rauður snjór – þegar loftslaginu blæðir“ stendur yfir í Norræna húsinu 15.október – 22.nóvember.
Að sýningunni standa lista- og vísindamenn frá Íslandi, Danmörku, Færeyjum, Grænlandi og Noregi.
Sýningaropnun verður 15.október kl. 17:30
Bente Elisabeth Endresen
Magnús Pálsson
Ragnhildur Stefánsdóttir
Julia Pars
Kristín Reynisdóttir
Kristian Blak
Pauline Motzfeldt Lumholt
Þóra Ellen Þórhallsdóttir
Tine Lander Rasmussen
Helgi Björnsson
Monica Kristensen
Jón Proppé.
Rauður snjór er nafn á hópi norrænna lista- og vísindamanna sem hafa áhyggjur af áhrifum loftslagsbreytinga á umhverfi og menningu á Norðurslóðum. Fyrir okkur sem búum á þessu svæði eru loftslagsbreytingar ekki bara framtíðarógn heldur sjáum við breytingarnar nú í dag allt í kringum okkur.
Jöklarnir á Grænlandi og Íslandi hopa hraðar ár frá ári og breyta landslagi, gróðri og farvegi vatna. Nýjar og ágengar tegundir finnast á hverju ári og raska jafnvægi í gróðurfari og dýralífi, og ógna líka lífríkinu í sjónum sem svo mörg samfélög á Norðurslóðum byggja afkomu sína á.
Hættuleg efni safnast upp í fæðukeðjunni og ógna heilsu okkar og barnanna okkar.
Í okkar augum er það ekki spurning hvort eða hvenær þessi þróun verður hættuleg: Við erum þegar komin að þeim mörkum.
Það verður heldur ekki lengur efast um það hvað veldur. Breytingarnar eru af mannavöldum: Við brennum olíu og gasi sem aldrei fyrr; námafélög rífa upp auðlindir jarðar og skilja heilu landsvæðin eftir sem eitraða auðn; olíufélög leita æ lengra í norður að nýjum lindum og taka lítið tillit til lífríkisins og menningar íbúanna.
Skammsýn sókn í æ meiri gróða og hagvöxt er að eitra Jörðina og á hinum viðkvæmu Norðurslóðum hefur þetta þegar valdið óafturkræfum breytingum.
Við sem búum í norðrinu verðum að takast á við þessi málefni og við verðum að segja öllum heiminum frá því sem er að gerast á heimskautasvæðinu ef það á að vera hægt að snúa þróuninni við og forðast algjört hrun.
Þess vegna höfum við í hópnum Rauður snjór sett saman nýtt verkefni sem felur í sér myndlistarsýningar, vinnustofur, listflutning og málstofur þar sem við leitumst við að efla umræðuna um loftslagsbreytingar og afleiðingar þeirra fyrir líf okkar sem búum í Norður-Atlantshafi.
Sýningin og viðburðir henni tengdir miða að því að skapa umhverfi fyrir þessar umræður: Ísjakar fljóta um í málverkum á veggjunum; höggmynd sýnir konu sem er orðin að ísbirni; vísindamenn setja fram rannsóknir sínar í máli og myndum; við heyrum sögur og trumbuslátt sem minna okkur á langa búsetu manna í norðrinu; við heyrum sögur um upphaf heimsins og örlög hans; við heyrum í hafinu um leið og við skoðum styttur af fólki sem virðist vera að sökkva ofan í gólfið; hangandi höggmyndaverk sýnir í svipan hvernig jöklarnir skreppa saman.
Í hópnum eru ekki bara listamenn heldur líka vísinda- og fræðimenn sem hafa lengi rannsakað þróunina og eru uggandi um afleiðingar hennar.
Rannsóknir þeirra eru kynntar og ræddar samhliða sýningunni og það er trú okkar að listir og vísindi þurfi að koma saman að þessum málefnum til að skýra hvað í húfi er og draga sem flesta inn í umræðuna.
Rauður snjór vill ná til fólks á Norðurslóðum til að ræða afleiðingar loftslagsbreytinga. Hvaða áhrif hafa breytingar í náttúrunni á okkur? Hvað þýðir það fyrir framtíðina? Hvernig munum við laga okkur að breyttu umhverfi?
Við trúum því að allir þurfi að koma að þessari umræðu og að allir hafi eitthvað fram að færa, ekki bara sérfræðingar og stjórnmálamenn. Við viljum nota sýningar okkar til að skapa umræðugrundvöll og vekja fólk til umhugsunar um vandann.
Við í norðrinu sjáum afleiðingar breytinganna og við verðum að láta raddir okkar heyrast. Ferðalag okkar byrjaði 2014 í Katuaq í Nuuk, sumarið 2015 var sýningin í Kaupmannahöfn og nú í Norræna húsinu í Reykjavík, og 2016 verður hringnum lokað með sýningu í Þórshöfn í Færeyjum.