HALLDÓR ÁSGEIRSSON KYNNIR DAGSKRÁ AÐ UPPSETNINGU Á 30 MYNDFÁNUM FRÁ 12. TIL 23 ágúst
Ferð til eldjöklanna 1. áfangi
Hugmyndin að baki myndlistarverkefninu Ferð til eldjöklanna snýst um náttúrukrafta Vatnajökuls í samtali við menningu og sögu sveitarinnar við rætur jökulsins. Fyrsti hlutinn birtist um þessar mundir í formi myndfána undir berum himni á 4 mismunandi stöðum frá Skeiðarársandi að Suðursveit. Seinni áfanginn er ráðgerður næsta sumar á Höfn í Hornafirði með sýningu og tengdum viðburðum úti sem inni í sveitarfélaginu. Verkefnið er unnið m.a. í samstarfi við Menningarmiðstöð Hornafjarðar – Listasafn Svavars Guðnasonar, Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Höfn og Þórbergssetur.
DAGSKRÁ:
- Sunnudagur 12. ágúst : Skeiðarárbrú uppsetning A.
- Mánudagur 13. ágúst : Skeiðarárbrú uppsetning B.
- Miðvikudagur 15. ágúst : Sandfell í Öræfum.
- Sunnudagur 19. ágúst : Jökulsárlón vestanmegin í varnargarði fyrir neðan brú.
- Mánudagur 20. ágúst : Jökulsárlón austanmegin í varnargarði fyrir neðan brú.
- Miðvikudagur 22. til fimmtudags 23. ágúst : Sléttaleiti í Suðursveit.
Fánarnir verða settir upp árla dags og teknir niður að kveldi nema í Sléttaleiti þar sem fánaborgin mun blakta yfir nóttina. Fánastengurnar eru 3 metrar á hæð og gerðar þannig að fáninn, sem er 185cm á hæð x 140cm á breidd, snýst með vindáttinni sem blæs hverju sinni. Myndefnið á fánunum 30 skiptist þannig : 12 fuglategundir sem eru áberandi á suðausturlandi, 12 „ hraunálfar „ sem eru upphaflega teikningar af hraunglerungi sem myndast þegar hraunsteinn er bræddur og ummyndast við kólnun í svartgljándi glerung. Teikningarnar eru síðan stækkaðar og málaðar á léreftsefnið í líkamsstærð. Einnig er að finna nokkur örnefni sem öll tengjast fánastöðunum og eru samsett orð máluð með íslensku og kínversku letri á myndflötinn. Kínverska stafrófið er myndletur sem lengi hefur veitt listamanninum innblástur en birtist í þessu samhengi ekki síst vegna ferðamanna sem í sívaxandi mæli heimsækja þetta landsvæði. Valið á fánastöðunum tengjast merkum áföngum í samgöngum sveitarinnar, Skeiðarárbrú og Jökulsá á Breiðamerkursandi, en einnig ættartengslum listamannsins við eyðibýlin Sandfell í Öræfum og Sléttaleiti í Suðursveit.
Halldór Ásgeirsson á langan feril að baki sem myndlistarmaður en fyrstu verk hans birtust upp úr 1980 með innsetningum og gjörningum tengdum frumöflunum. Halldór hefur búið og starfað á Íslandi, Frakklandi og Japan auk þess að hafa sett upp verk sín viða um heim.
The post Dagskrá á uppsetningum á myndfánum 12. – 23. ágúst appeared first on sím.