Safnahelgi á Suðurnesjum er haldin í 10. sinn um komandi helgi og standa söfn og sýningar gestum opin auk þess sem fjölbreytt dagskrá er í boði. Í tilefni helgarinnar býður Listasafn Reykjanesbæjar upp á tvo spennandi viðburði.
Myndlistarmaðurinn Stephen Lárus Stephen stendur fyrir myndlistargjörningi í listasal á sunnudaginn. Sjálfur kallar hann viðburðinn “A Camera Painting Event” og munum við sjá listamanninn að störfum með lifandi módel þar sem ýmsar uppstillingar verða reyndar. Viðburðurinn verður skrásettur á mynd og er liður í stærra verkefni Stephens sem er best þekktur fyrir portrett verk sín en hann sýndi einmitt í safninu ásamt Stefáni Boulter árið 2014.
Klukkan 15 verður Aðalsteinn Ingólfsson listfræðingur og sýningarstjóri með leiðsögn um sýninguna Hjartastaður sem samanstendur af Þingvallamyndum úr einkasafni Sverris Kristinssonar og var sett upp í tilefni 100 ára afmælis fullveldis á Íslandi. Hér veltum við fyrir okkur gildi þessa helgasta staðar Íslendinga fyrir þjóðarvitundina og þá um leið áhrifum Þingvalla á myndlist þjóðarinnar.
The post A Camera Painting Event og leiðsögn í Hjartastað appeared first on sím.