Föstudaginn 18. september kl. 13 heldur myndlistarmaðurinn Ívar Valgarðsson opinn fyrirlestur um verk sín og vinnuaðferðir í fyrirlestrarsal myndlistardeildar að Laugarnesvegi 91.
Ívar Valgarðsson býr og starfar í Reykjavík. Hann stundaði myndlistarnám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1971-75 og framhaldsnám í Hollandi við Stichting de Vrije Academie voor Beeldende Kunsten Den Haag árið 1977-80, ásamt dvöl í New York árið 1989-91. Ívar hefur haldið yfir fimmtíu einka- og samsýningar bæði á Íslandi og erlendri grundu.
Í erindi sínu mun Ívar stikla á og fjalla um helstu verk sín af ferlinum eins og tíminn leyfir. Í umfjöllun Ragnheiðar Hrafnkelsdóttur um verk Ívars segir m.a. „Myndlist Ívars er staðsett í ákveðnu, efnislegu rými. Hún er sprottin upp úr því umhverfi sem hún er sett fram í og er um leið viðbót við það sama umhverfi. Ef verk er á vegg þá er veggurinn orðinn eðlilegur hluti verksins og öfugt. Jafnframt eru verk Ívars samtal við listasöguna; málverk, skúlptúr og arkitektúr og setja fram spurningar við listhefðina og hlutverk listarinnar. Ein af þeim spurningum sem vakna í þessu samhengi er hvort listin og lífið sé eitt ? – eða leitar listin fyrst og fremst úrlausna á forsendum listarinnar sjálfrar? Í Ívars tilviki er svarið já í báðum tilvikum. List Ívars sprettur af skoðun á hversdaglegu umhverfi okkar – hún er þessa heims um leið og hún krefst úrlausna á eigin forsendum“ R.H.
Frekari upplýsingar um verk Ívars má finna á heimasíðunni http:// http://www.galeriekimbehm.com
Fyrirlesturinn fer fram á íslensku og eru allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir.
Opnir fyrirlestrar í myndlistardeild
Á ári hverju heldur fjöldi lista- og fræðimanna erindi um verk sín og hugmyndir á fyrirlestrum í myndlistardeild. Fyrirlestrarnir eru opnir almenningi og er ætlað að kynna margþætt viðfangsefni úr heimi lista og samtímamenningar og hvetja til umræðu um þau. Fyrirlestrarnir eru mikilvægur þáttur í starfsemi deildarinnar og eru ætlaðir til að efla tengsl milli nemenda og starfandi lista- og fræðimanna.
Fyrirlestrar í myndlistardeild fara fram í fyrirlestrarsalnum að Laugarnesvegi 91. Þeir eru opnir almenningi og er aðgangur ókeypis.