HJÓLIÐ – sýningaröð í tilefni af 50 ára afmæli Myndhöggvarafélagsins í Reykjavík. Kallað er eftir tillögum og hugmyndum að verkum.
Frestur til að skila inn gögnum rennur út á miðnætti sunnudaginn 21. janúar 2018.
Þann 18. ágúst s.l. fagnaði Myndhöggvarafélagið í Reykjavík 45 ára afmæli, en félagið var stofnað á afmælisdegi Ragnars Kjartanssonar heitins árið 1972. Að þessu tilefni hefur stjórn MHR ákveðið að efna til sýningaraðar með verkum félaga sem mun opna í áföngum næstu fimm árin uns félagið verður 50 ára. Sýningarröðin hefur hlotið nafnið HJÓLIÐ og mun fyrsti áfangi hefjast sumarið 2018. Nýr sýningarstjóri mun leiða hvern áfanga og verður sérstök áhersla lögð á að leita til einstaklinga með ólíkar áherslur og persónulega sýn á tíma og rými borgarinnar. Andi verkefnisins berst á vissan hátt frá Strandlengjunni, útilistasýningu sem MHR hélt í tveimur áföngum í kringum síðustu aldamót. Hjólið mun hins vegar rúlla víðar og slóð þess teygja anga sína um borgina breiða og endilanga.
Sýningaröðin mun þræða sig eftir göngu- og hjólastígum höfuðborgarinnar um opin svæði inn og eftir endilöngu borgarlandinu.
Sýningarstjórn Hjólsins hefur boðið Heiðari Kára Rannverssyni, sjálfstætt starfandi sýningarstjóra og listfræðingi, að leiða fyrsta áfanga sýningaraðarinnar og velja úr innsendum hugmyndum félagsmanna til frekari útfærslu. Auk þess verður erlendum myndhöggvurum boðið til leiks á hverju ári. Sýningin hefur hlotið titilinn FALLVELTI HEIMSINS en þar leggur Heiðar Kári til að skoðað verði hvernig myndlist getur birt og tekist á við samtíma sem er undiropinn stöðugum breytingum.
Kallað er eftir tillögum frá félagsmönnum MHR fyrir fyrsta áfanga sýningaraðarinnar sumarið 2018.
Skila má inn hugmyndum að verkum sem eru í hvaða formi sem er. Tillögur að verkum þurfa ekki að einskorða sig við eitt rými, heldur geta verið í mörgum hlutum, teygt sig eftir göngu- eða hjólastíg, eða verið bæði utan dyra og innan í senn. Í tillögunni skal koma fram greinargóð lýsing á hugmyndum að verki (hámark 1 A4 bls.) auk myndefnis.Við val á tillögum verður litið til þess hvernig þær samræmast grunnhugmynd sýningarinnar að fylgja hjóla- og göngustígum höfuðborgarinnar og á hvaða hátt verkin vinna með staðsetningu og ólíkar kringumstæður í borgarlandinu. Við val á sýnendum verður gætt að hlutföllum milli kynja og kynslóða en líka hvað varðar fjölbreytileika í efnistökum.
Verkin í sýningaröðinni verða skrásett jafnóðum og þau líta dagsins ljós. Sýningarskrá verður gefin út með listaverkum hvers áfanga sem að lokum mynda eitt samfellt bókverk.
Tekið er við gögnum rafrænt í tölvupósti á fallveltiheimsins@gmail.com.
Frestur til að skila inn tillögum rennur út á miðnætti sunnudags 21. janúar 2018.
Hugmyndalegur rammi sýningarinnar FALLVELTI HEIMSINS leggur út af titli sýningaraðarinnar og vísar í örlaga- eða hamingjuhjólið (Rota Fortunae), sem skoða má sem tákn um framvindu og hringrás lífsíns en einnig í heiminn sjálfan – hjólið sem jarðar-hvel á eilífum snúningi.
Sögnin um hamingjuhjólið á rætur í forlagahyggju mannsins þar sem gyðjan Fortúna var talin ákveða örlög manna með því að snúa hjóli sem þeir voru fastir á. Þannig nutu sumir mikillar gæfu í lífinu og aðrir urðu ógæfu að bráð en í táknmynd hjólsins má skynja að maðurinn hafi löngum áttað sig á því að jarðvistin sé ansi fallvölt. Í samtímanum virðist nú sem maðurinn sé einnig að átta sig á því að heimurinn sem hann byggir er forgengilegur. Hugtakið „anthropocene“ (ísl. mannöld) hefur á undanförnum árum í ríkjandi mæli verið notað til þess að lýsa nýju tímabili í sögu jarðarinnar og mannkynsins, þar sem maðurinn er orðinn mótandi afl sem umbreytir og eyðir kerfum jarðarinnar með áður óþekktum hætti. Hvort sem skilgreina á tímabilið út frá kjarnorkutilraunum sem hefjast um miðja tuttugustu öld, vegna losunar koltvísýrings út í andrúmsloftið sem leiðir af sér hnattræna hlýnun, mengunar úthafanna af völdum plastrusls eða útbreiðslu og fjölgunar hænsfugla í heiminum með tilheyrandi úrgangi svo fátt eitt sé nefnt, er ljóst að á mannöld erum við bókstaflega Á hverfanda hveli. Hugmyndin sem liggur til grundvallar sýningunni setur á þennan hátt tíma og rými einstaklingsins, æviskeið (lista)mannsins í samhengi við tíma og rými (borgar)umhverfisins, lífsskeið heimsins. Tilgangurinn með sýningunni er að takast á við aðkallandi spurningar um samlíf mannsins með jörðinni og skilning hans á umhverfinu í samtíma sem er undiropinn stöðugum breytingum. Um leið mun sýningin leitast eftir að birta tillögur að svörum við þessum spurningum, allt frá fútúrískum dómsdagsspám til rómantískrar boðunar um nýtt upphaf.
Staðsetning
Sýningin FALLVELTI HEIMSINS mun eiga sér stað á svæði þar sem er að finna mjög fá listaverk í opinberu rými borgarinnar. Hún mun þræða sig eftir hjólastígum um hverfin Háaleiti, Múla, Kringlu, Leiti og Gerði, auk Bústaða- og Smáíbúðarhverfið. Staðsetning þessa áfanga Hjólsins afmarkast af hring sem myndaður er af fjölförnum og auðkenndum götum í borginni: Kringlumýrarbraut til vesturs, Suðurlandsbraut til norðurs, Réttarholtsvegi til austurs og Bústaðavegi til suðurs.
Á svæðinu er að finna blandaða íbúabyggð og stærri eða minni atvinnusvæði. Þar má finna marga nýlega göngu- og hjólastíga, bæði meðfram götum sem mynda hring um svæðið og með stórum götum sem skipta því upp: Miklubraut, Háaleitisbraut og Grensásveg. Auk þess má finna fjölmarga smærri stíga sem ganga þvert og endilangt um íbúðabyggðina. Svæðið býður þannig upp á fjölbreytt opinber rými í nálægð við göngu- og hjólastíga borgarinnar þar sem vinna má útilistaverk, en á svæðinu er einnig að finna einn almenningsgarð: Grundargerðisgarð við Grundargerði.
Staðsetningin sem um ræðir afmarkast einnig af nokkrum eldri verslunarkjörnum sem margir hverjir hafa fengið nýtt hlutverk: Suðurver við Kringlumýrarbraut, Austurver og Miðbæ við Háaleitisbraut, Glæsibæ og Vogaver við Suðurlandsbraut og Grímsbæ við Bústaðaveg. Þessi hálf-opinberu rými verða einnig nýtt fyrir sýninguna og eru hugsuð fyrir verk sem krefjast þess að vera innandyra, t.d. vídeóverk eða innsetningar.
Frekari upplýsingar veitir Heiðar Kári Rannversson, sýningarstjóri fyrsta hluta Hjólsins, heidar.rannversson@gmail.com, sími 6930486.
Sýningarnefnd skipa:
Anna Eyjólfsdóttir
Bryndís Hrönn Ragnarsdóttir
Hlynur Helgason
Haraldur Jónsson, formaður
Jóhanna Kristbjörg Sigurðardóttir
Örn Alexander Ámundason
The post HJÓLIÐ – Myndhöggvarafélagið í Reykjavík óskar eftir tillögum fyrir afmælissýningu appeared first on sím.