FRÉTTATILKYNNING – TÍÐIR VINNINGSTILLAGA Í SAMKEPPNI FAXAFLÓAHAFNA
Þriðjudaginn 24. október, voru tilkynnt úrslit í samkeppni um nýtt útilistaverk við Gömlu höfnina í Reykjavík sem Faxaflóahafnir efndu til fyrr á þessu ári. Tillagan sem varð hlutskörpust ber heitið Tíðir, en bak við hana standa Hulda Rós Guðnadóttir, myndlistarmaður, Hildigunnur Sverrisdóttir, arkitekt, og Gísli Pálsson fornleifafræðingur. Hópurinn hlaut 600.000 kr. í verðlaun.
Þema samkeppninnar var hlutdeild kvenna í starfssemi og sögu hafnarinnar, en efnt var til hennar í tilefni af 100 ára afmæli Gömlu hafnarinnar. 29 aðilar, einstaklingar og hópar, gáfu kost á sér í samkeppnina sem haldin var í samstarfi við Samband íslenskra myndlistarmanna (SÍM). Að loknu forvali voru fimm aðilar eða hópar valdir til að taka þátt í lokaðri samkeppni. Þeir voru:
Guðrún Vera Hjartardóttir
Hildur Bjarnadóttir og Ólafur Sveinn Gíslason
Hulda Rós Guðnadóttir, Hildigunnur Sverrisdóttir og Gísli Pálsson
Jónína Guðnadóttir og Sveinn Bjarki Þórarinsson
Rúrí (Þuríður Rúrí Fannberg)
Það var Líf Magneudóttir, formaður dómnefndar, sem kynnti niðurstöðurnar á árlegu málþingi Faxaflóahafna sem haldið var í Hörpu í gær. Í umsögn dómnefndar um vinningstillöguna segir meðal annars:
“Tíðir er umhverfisverk, villigarður, þar sem tekist er á við frumkrafta náttúrunnar og unnið með villigróður í bland við manngert umhverfi borgarinnar.
Í verkinu er vísað í störf kvenna á mótum lands og sjávar. Sjónum er ekki einungis beint að hefðbundnum störfum eins og að stakka fiski, beitningu og uppskipun, heldur einnig að því að hirða strandnytjar til að veita líkn gegn sulti og veikindum. Garðurinn myndar tákn fyrir konuna sem skapar umgjörð, hlúir að og veitir skjól.
Styrkur verksins liggur í því hvað það er marglaga, það vísar í söguna en tekur jafnframt á málefnum samtímans og vísar til framtíðar. Verkið er í stöðugri umbreytingu vegna áhrifa frá umhverfi sínu, rétt eins og staða og störf kvenna hafa tekið breytingum í gegnum tíðina.
Verkið Tíðir er nýr viðkomustaður í borginni, vin þar sem vegfarendur geta dvalið og notið. Verkið er minnisvarði um framlag kvenna og um leið hið síbreytilega landslag sjávarsíðu Reykjavíkur.”
Auk Lífar sátu í dómnefndinni Bryndís Snæbjörnsdóttir, myndlistarmaður, Hildur Gunnlaugsdóttir, skipulagsfulltrúi Faxaflóahafna, Ólöf Nordal, myndlistarmaður og Sindri Leifsson, myndlistarmaður. Dómnefndin naut ráðgjafar Vignis Albertssonar byggingafræðings. Í forvalsnefnd sátu Ólöf K. Sigurðardóttir, safnstjóri Listasafns Reykjavíkur, Guðrún Erla Geirsdóttir, myndlistarmaður og Ragna Sigurðardóttir, myndlistarmaður og rithöfundur. Trúnaðarmaður SÍM í samkeppninni var Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir, myndlistarmaður.
Á vef Faxaflóahafna má nálgast dómnefndarálitið og vinningstillöguna
The post Úrslit í samkeppni um nýtt útilistaverk við Gömlu höfnina appeared first on sím.