Borgarbókasafnið | Menningarhús Gerðubergi
23. september – 19. nóvember
Laugardaginn 23. september kl. 14 opnar sýning á verkum þriggja pólskra listamanna í Gerðubergi. Sýningin er á dagskrá pólsku menningarhátíðarinnar Við skin Norðurljósa sem haldin verður í Reykjavík og á Akureyri dagana 23. – 29. september.
Á sýningunni í Gerðubergi verða sýnd nýleg veggspjöld eftir þrjá pólska samtímalistamenn: Leszek Żebrowski, Sebastian Kubica og Moniku Starowicz en þau eru sértakir gestir hátíðarinnar.
Í Póllandi er rík hefð fyrir veggspjaldagerð. Það sem er einkennandi fyrir pólsk veggspjöld er hnitmiðuð og greinargóð framsetning og frumleg notkun á myndmáli þar sem húmor eða hið gróteska getur oft verið undirliggjandi.
Þeir listamenn sem fengust við veggspjaldagerð í Póllandi eftirstríðsáranna höfðu djúpstæð áhrif á pólska samtímalist. Með frumlegri framsetningu í myndmáli og texta náðu veggspjöldin hylli út fyrir landamæri Póllands. Auk tækninýjunga þess tíma höfðu þessir frumkvöðlar í gerð pólskra veggspjalda djúpstæð áhrif á þá listamenn sem fylgdu í kjölfarið.
Um listamennina
Zebrowski vinnur með „fátæka veggspjaldið“ þar sem það hefur verið „hreinsað“ af öllum óþarfa. Aðferð hans felst í að teikna beint á offset-plötu sem síðan er fjarlægð þannig að eftir stendur svart-hvítt prent.
Myndefni veggspjalda Kubica eru smásögur. Í þeim skapar hún veröld sem er full af dulúð og göldrum sem áhorfendum gefst kostur á að stíga inn í.
Hið kvenlega hrifnæmi er rauði þráðurinn í verkum Starowicz. „Veggspjöld eiga að vera falleg en um leið senda skýr skilaboð. Ég fylgi minni innri rödd og í hverju veggspjaldi sem ég geri er hluti af mér sjálfri. Ég leik mér með liti, áferð og form í veggspjaldinu sem hreyfir vonandi við áhorfandanum og hvetur hann til aðgerða.
Verkefnið er unnið í samstarfi við mennta- og menningarráðuneytið og Þjóðminjasafn Póllands.
Ókeypis aðgangur og allir velkomnir.
The post Við skin norðurljósa | Sýning á pólskum veggspjöldum appeared first on sím.