Quantcast
Channel: sím
Viewing all articles
Browse latest Browse all 4356

Jónsmessugleði Grósku 2017 í Garðabæ

$
0
0

Myndlistarsýning með listviðburðum við Strandstíginn í Sjálandshverfi, Garðabæ

22. júní kl. 19:30-22
Sumarsólstöður nálgast óðfluga og fimmtudaginn 22. júní kl. 19:30-22:00 verður Jónsmessugleði Grósku haldin í níunda sinn við Strandstíginn í Sjálandshverfi Garðabæjar. Hún verður opnuð formlega kl. 20 með ávarpi frú Elizu Reid forsetafrúar.

Á Jónsmessugleðinni verða fjölbreytt listaverk til sýnis í töfrandi umhverfi Ylstrandar með útsýni yfir hafið. Sýnendur eru vel yfir 40 talsins og hafa aldrei verið fleiri enda hafa gestalistamenn í boði Grósku flykkst hvaðanæva að til að taka þátt í Jónsmessugleðinni. Málverk á striga eru strengd milli staura og innsetningar ljá sýningunni sérstæðan blæ. Að venju verða líka fjölmargir aðrir listviðburðir á dagskrá, svo sem söngur, ljóðalestur, lúðrablástur, harmonikkuleikur og ýmis konar glens og gaman. Bæði ungir og aldnir láta ljós sitt skína enda er Jónsmessugleðin fyrir fólk á öllum aldri. Einnig býður Gróska upp á veitingar og búast má við óvæntum uppákomum og furðufyrirbærum. Listamennirnir vinna nefnilega með ákveðið þema sem að þessu sinni er: „En hvað það var skrýtið“.

Skorað er á gesti að taka þátt í skringilegheitunum með því að mæta í skrýtnum fatnaði eða fara á listrænt flug með því að skreyta sig fjöðrum. Á Jónsmessugleðinni gefst svo gott tækifæri fyrir fólk til að taka myndir af hvert öðru við frumlegar aðstæður.

Allir eru velkomnir á Jónsmessugleði Grósku, Garðbæingar jafnt sem aðrir og fólk er hvatt til að fjölmenna.

Gróska, félag myndlistarmanna í Garðabæ, stendur fyrir Jónsmessugleðinni í samstarfi við Garðabæ og hefur boðið öðrum myndlistarfélögum til leiks með sér. Auk þeirra sem búa á höfuðborgarsvæðinu koma gestalistamenn meðal annars frá Akranesi og Vestmannaeyjum. Þess má svo geta að allir listamennirnir gefa vinnu sína þetta kvöld í anda einkunnarorða Jónsmessugleðinnar: Gefum, gleðjum og njótum. Eru gestir gleðinnar hvattir til að gera þau líka að sínum. Að venju lýkur Jónsmessugleðinni með lokagjörningi kl. 22 og mun hann vafalaust koma fólki skemmtilega á óvart.

Jónsmessugleði Grósku hefur verið árviss viðburður síðan 2009. Hún vex og dafnar með hverju ári og er áætlað að um 10 þúsund manns hafi mætt þegar fjölmennast var. Jónsmessugleðin er stærsta sýning Grósku en auk hennar stendur félagið árlega fyrir fleiri sýningum og opnum fyrirlestrum sem tengjast listum og menningu. Starfsemi Grósku er um þessar mundir í örum vexti. Félagsmenn eru um 80 talsins og þeim fer sífellt fjölgandi. Þeir tengjast Garðabæ gegnum búsetu eða vinnu og vill Gróska hvetja sem flesta listamenn í Garðabæ til að sækja um inngöngu í félagið.

https://ww.artgalleryiceland.com

https://www.facebook.com/groska210/?fref=ts

The post Jónsmessugleði Grósku 2017 í Garðabæ appeared first on sím.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 4356