Nýlistasafnið býður ykkur innilega velkomin á opnun Rolling Line, sýningu sem spannar rúman áratug af verkum og listheimildum eftir myndlistarmanninn Ólaf Lárusson (1951 – 2014).
Sýningin opnar laugardaginn 18. mars milli klukkan 14 – 18 og mun jafnframt vígja nýtt rými Nýlistasafnsins við höfnina, í Marshallhúsinu að Grandagarði 20, 101 Reykjavík.
Verk Ólafs Lárussonar hrífa okkur með sér á vit ævintýra og sagna, upp á heiði og út í móa. Ólafur var blátt áfram í list sinni og leitaðist við að brjóta hina hefðbundnu miðlaumgjörð svo að verkin sjálf fengju vængi. Þetta er í fyrsta sinn sem verk Ólafs eru sýnd saman í viðleitni til að draga upp heildræna mynd af afkastamestu árum listamannsins.
Samhliða sýningunni verður gefin út vegleg bók í tilefni þeirrar stóru gjafar sem Nýlistasafninu barst frá fjölskyldu Ólafs og inniheldur mikið magn efnis frá vinnustofu listamannsins. Í heimildarsafni um vinnu Ólafs má finna yfir 1200 gögn, þ.m.t hluta af filmusafni listamannsins, negatífur og upptökur af gjörningum, ljósmyndir og VHS-upptökur.
Á sýningunni verða sýndar upptökur og heimildir sem nýlega komu í leitirnar, af eftirminnilegum gjörningi sem Ólafur framdi í gallerí SÚM árið 1978. Jafnframt verða sýnd verk eftir Ólaf í eigu Listasafns Reykjavíkur, Listasafns Íslands og Safnasafninu ásamt ótal verkum í einkaeigu, frá söfnurum, vinum og vandamönnum Ólafs.
Útgáfuhóf bókarinnar verður kynnt síðar en þá verður ekki síður tilefni til að fagna!
Það er stjórn Nýló jafnframt mikil ánægja að bjóða ykkur að vera viðstödd opnun Marshallhússins við höfnina þar sem Nýlistasafnið ásamt Kling & Bang og Ólafi Elíassyni munu opna nýja miðstöð myndlistar í Reykjavík. Einnig verður starfræktur nýr veitingastaður og bar á jarðhæð hússins í umsjón Leifs Kolbeinssonar.
Sýningarstjórar eru Þorgerður Ólafsdóttir & Becky Forsythe og sýningarhönnun er unnin í samstarfi við Thomas Pausz.
Fyrir frekari upplýsingar má hafa samband við Þorgerði Ólafsdóttur, formann stjórnar í síma 6916552 / 5514350 og senda póst á nylo@nylo.is.
The post Nýlistasafnið: Rolling Line opnar í Marshallhúsinu appeared first on sím.