Listamannaspjall: Rósa Sigrún Jónsdóttir og Anna Rósa Róbertsdóttir
Fimmtudaginn 28. júlí kl. 20 í Hafnarhúsi
Myndlistarkonan Rósa Sigrún Jónsdóttir og grasalæknirinn Anna Rósa Róbertsdóttir ræða við gesti um heilnæmi handverks og gróðurs. Rósa Sigrún á verkið Grös á sýningunni RÍKI – flóra, fána, fabúla. Verkið samanstendur af hekluðum og lituðum eftirmyndum af íslenskum lækningajurtum.
Á Íslandi má finna yfir tuttugu ólíkar tegundir lækningajurta sem öldum saman hafa verið nýttar til heilsubótar. Rósa Sigrún hefur sérhæft sig í gerð verka sem byggjast á sígildu handverki og krefjast tíma og natni. Hún þekkir þannig á eigin skinni kenningar um jákvæð áhrif einhæfrar en skapandi vinnu. Þekkt er að mörg vandamál hafa verið leyst yfir handavinnu. Í verkinu Grös sameinar hún þetta tvennt, heilnæmi handverks og gróðurs. Verkið var unnið í samstarfi við hóp handverkskvenna sem hekluðu smágerð laufblöð, blómknappa og stilka.
Anna Rósa hefur starfað við grasalækningar í rúma tvo áratugi. Grasalækningar byggjast á alþýðuvitneskju sem varðveist hefur mann fram af manni. Hverri jurt fylgja ýmsir eiginleikar sem taldir eru gera gagn, inn- og útvortis. Handverkskonurnar deildu sögum, gömlum og nýjum, og í ljós kom að ekki er einungis um að ræða seyði og smyrsl gegn forneskjukvillum heldur eru margar íslenskar jurtir taldar búa yfir eiginleikum sem koma að gagni við nýsköpun á sviði lyfjafræðinnar.
Listamannaspjallið fer fram á íslensku. Aðgöngumiði á safnið gildir.
The post Listamannaspjall í Hafnarhúsi appeared first on sím.