Útskriftarsýning meistaranema í hönnun og myndlist.
- apríl – 8. maí
Gerðarsafni, Kópavogi.
Meistaranemar í myndlist og hönnun sýna afrakstur tveggja ára meistaranáms á útskriftarsýningu í Gerðarsafni sem opnar laugardaginn 16. apríl kl. 14:00.
Sýningin stendur til 8. maí. Aðgangur ókeypis – allir velkomnir.
Í MA námi í myndlist er nemendum skapaður vettvangur til að dýpka og auka þekkingu sína á sviði samtímamyndlistar, styrkja persónulega sýn og tengja listsköpun sína við fræðilegar forsendur fagsins. Í MA námi í hönnun býðst nemendum vettvangur til umbreytingaferlis sem tekur mið af 21. aldar áskorunum og viðfangsefnum. Námið undirbyggir skilning á tengingum í skapandi umbreytingu og hönnunarhugsun sem undirbyggir nýbreytni og nýsköpun í lífsháttum og pólitísku umhverfi.
“Útskriftarhópurinn er frá nær öllum heimshornum. Síðast liðin tvö ár hefur hann tekið þeirri áskorun hvað á fætur öðru að rannsaka viðfangsefni sem eru margbrotin flókin og má sjá frá mörgum sjónarhornum. Þau hafa sýnt að þau geta sökkt sér í viðfangsefnin og skoðað tengslin og hannað leiðir til umbóta. Þessir meistarar í hönnun eru verðugir erindrekar þróunar til framtíðar. Þau eru borgarar alls heimsins og sem slík trausts verð.”
Dóra Ísleifsdóttir, fagstjóri meistaranáms í hönnun.
„Hverjum útskriftarhópi fylgir ákveðinn púls og tíðarandi þó bakgrunnur nemenda og listræn sýn sé alltaf margbreytileg. Þau viðfangsefni sem mér hafa þótt vera ríkjandi í listsköpun og rannsóknum þessara einstaklinga hafa snúið að því að draga fram það sem alla jafna er erfitt að koma auga á. Þau leita í einhverjum skilningi handan þess sýnilega með það að markmiði að finna því myndrænt form. Þau leita að nýju samhengi hlutanna, flækja vísvitandi skilning okkar á veruleikanum. Víddir tímans eru sprengdar upp og samsláttur innri og ytri veruleika grandskoðaður. Þökk sé þeim stöndum við vonandi frammi fyrir opnari möguleikum til sjónrænnar upplifunar.“
Hulda Stefánsdóttir, fagstjóri meistaranáms í myndlist.
Sýnendur:
ANANDA SERNÉ
ANNA GUIDICE
ANNE ROMBACH
CLAIRE PAUGHAM
EUSUN PAK
INGA MARÍA BRYNJARSDÓTTIR
MA PENGBIN
MARÍA DALBERG
SHU YI
SINÉAD MCCARRON
VERONIKA GEIGER
ÞÓRDÍS JÓHANNESDÓTTIR
ÞRÖSTUR VALGARÐSSON
Sýningarstjóri:
DANÍEL BJÖRNSSON
VERKIN
Hönnun:
Lítur út eins og tónlist – Anna Guidice
“Verkefni mitt er borðspil sem má nota til að kanna frekar margbreytileika hljóðskynjunar. Spilið leggur til nýja nálgun til að skilja borgarumhverfi og að þróa verkefni með rannsóknum á sambandi hljómvettvangs og borgar. Reykjavík, sem er með samþjappað borgarumhverfi, reyndist mér frábær formgerðarflokkun fyrir rannsóknina.“
Líf-/jarðhermunar kennslu- og námsaðferð – Sinéad McCarron
“Tilgangurinn með rannsókn minni og hönnun út frá henni er að uppgötva möguleika til að skapa kennslu- og námsaðferð sem eflir nemandann en færist undan því að tiltaka takmarkanir og vangetu hans. Tól sem fær nema til að dafna í stað þess eingöngu að komast í gegnum hefðbundin lærdómsumhverfi. Það breytir „kennara-nemanda“ sambandinu í „leiðbeinanda-nema“ samband með samvinnutækni í sköpun. Tólið notar stærðfræði algórisma Pi, Phi og Fibonacci, og tjáningu þeirra í náttúruheiminum sem myndhverfingu fyrir kortlagningu vaxtar og ferli þess að verða.”
Samband – Eusun Pak
“Með því að hanna þessa seríu af abstrakt hlutum hef ég skapað farveg til að auðvelda samskipti og deila tilfinningum. Hlutirnir endurspegla persónulega reynslu mína og tilfinningar sem ég hef fundið í sambandi við náttúruna. Hlutirnir eru miðlar til að hjálpa fólki að tengjast sínum eigin tilfinningum og finna tengingu við aðra. Sem listamaður og hönnuður sem sér sambandsleysið í samfélaginu ákvað ég að nota þessa abstrakt hluti sem myndhverfa miðla sem grundvallast á mannlegum tilfinningum og tengslum”
Hinn nýji Kínamúr – MA Pengbin
Með hönnun minni leitast ég við að greina pólitíska kynningarstarfsemi í Kína útfrá sjónarhóli grafískrar hönnunar, með það fyrir augum að öðlast betri skilning á málefninu.
Ég trúi því að það sé nauðsynlegt að koma af stað umræðu um hlutverk pólitískrar kynningarstarfsemi til þess að vekja fólk til umhugsunar um eðli fjölmiðlaumhverfis okkar og fyrirframgefnu skoðana.
Ég ber þá von í brjósti að hönnun mín geti aukið við þennan skilning og myndað brú til að ná til annars fólks sem hefur svipaðar áhyggjur hvað varðar hlutverk fjölmiðla í Kína.
Virk myndbirting veðurs – Shu Yi
Verkefni mitt er nýtt margmiðlunarkerfi fyrir íslenskar veðurupplýsingar. Það hvetur áhorfendur til að stofna til mun persónulegri tengingar við upplýsingarnar, sem tengjast menningarlegum, tilfinningalegum og fagurfræðulegum gildum þeirra, til að hraða mun gagnvirkari og sameiginlegum skilningi á veðuraðstæðum á Íslandi. Þessi nálgun flytur ekki aðeins veðurfréttir heldur kannar einnig mun náttúrulegra samband milli upplýsinga og skynjunar.
MYNDLIST
Sounds of the sea, Cricets and Translucent Yellow (Hljómar hafsins, krybbur og gegnsær gulur ) – Ananda Serné
Sounds of the Sea, Crickets and Translucent Yellow er ljóðræn íhugun um hið listræna ferli. Vídeóið stillir saman tveimur nákvæmlega eins styttum: önnur er staðsett í garði nálægt Nagoya, hin við sjóinn í litlum bæ í Hollandi. Verkið beinist ekki að þeim sagnfræðilegu vísunum sem styttur fela oft í sér, heldur kaus ég frekar að skoða hvernig stytturnar virka sem fulltrúar þess umhverfis sem þeim er stillt upp í. Útgangspunktur minn í þessu verki var sá möguleiki að geta verið á tveimur stöðum í einu í gegnum skilningarvitin.
Ummyndun – Þórdís Jóhannesdóttir
Titill rannsóknarverkefnisins er Ummyndun, sem vísar til hringferils þess að vinna verk úr ljósmyndum sem ég hef tekið af verkum Gerðar Helgadóttur myndhöggvara. Titillinn vísar þannig hvorki til neins óræðs né til frásagnar, heldur til ummyndunar sem á sér stað þegar þegar ljósmyndirnar verða aftur að skúlptúr samsetningum í úrvinnslu minni og samtalsins við verk Gerðar í þessu safni tileinkuðu ævistarfi merkrar listakonu.
Choreographing stillness – Þröstur Valgarðsson
Hversdagurinn er stöðug og þýðingarmikil nærvera. Hann er svo ofurvenjulegur að það er mun erfiðara að koma auga á þessar ótal litlu uppákomur og aðstæður heldur en stórbrotin augnablik og þau óvæntu atvik sem alltaf eru að koma upp. Hvað get ég sem listamaður gert til þess að sjá heiminn, hversdaginn í öðru ljósi? Að hluta til felst svarið í að leitast við að skapa fagurfræðilega reynslu úr hversdeginum. Í verkum mínum einbeiti ég mér að tilbrigðum raunveruleikans, því persónulega og heimilislega lífi sem viðkemur sjálfum mér í þeim aðstæðum og tilbrigðum daglegs lífs eins og þau birtast hverju sinni.
Flökt – Maria Dalberg
Athygli hugans flöktir á milli þess rýmis sem umlykur okkur og innra landslags hugsana, minninga og drauma. Skynjun okkar getur verið breytileg frá einu augnabliki til annars þar sem hún stjórnast af flóknu samspili innri og ytri veruleika. Við getum því upplifað augnablikin sem stutt eða löng, snögg eða hæg. Ég velti fyrir mér hvernig hreyfing athyglinnar ferðast á milli umhverfisins og hugsana, þessu samtali hugsana við umhverfið. Náttúrulegar hreyfingar eins og að ganga eða klappa eru rytmatískar, andadrættir eru taktfastir og líffæri okkar hafa sinn eigin slátt. Jörðin þenst út og dregst saman eftir hægum rytma. Í vinnuferlinu hef ég verið að kortleggja ólíka slætti út frá líkamshreyfingum ásamt ólíkum rytma í hreyfingum frá umhverfinu.
Hraun – Veronika Geiger
Verk mitt rýnir í hugmyndir um tíma, þyngdarafl, þunga og þyngdarleysi í sambandi við landslag og staði sem við ráðum yfir og búum á. Eftir tveggja ára dvöl á Íslandi hefur áhugi minn á ólíkum tímalögum orðið gríðarlega mikilvægur þáttur í listsköpun minni. Í þessum framlengda tímaramma breytist hversdagsleg ásýnd hlutanna. Verkefnið Hraun samanstendur af ljósmyndaprentum auk vídeóverks sem eiga rætur að rekja til bergfræðilegra skyggna úr hrauni héðan og þaðan á Íslandi og ljósmyndaafþrykkjum úr hraunhelli á Snæfellsnesi. Með aðferðum ljósmyndunar í myrkraherberginu leitast ég við að kalla fram hið óhlutstæða í efninu og teygja á tímaskyni okkar.
Umbreyting – Inga María Brynjarsdóttir
Ég hef alltaf verið heilluð af dýrum og samskiptum okkar við þau og listsköpun mín ber þess augljós merki. Við virðumst hafa skorið á tengsl okkar við dýraríkið á sama tíma og við manngerum þau í myndmáli og dásömum í frásögnum.
Teikningin er mín líflína. Minn miðill, þar sem ég fæ útrás fyrir tilfinningar og lífsreynslu. Teikningin er heilandi og nokkurskonar sjálfshjálp sem ég hef tileinkað mér allt frá æsku. Ég næ einbeitingu í hægu ferli teikningarinnar sem krefst grandskoðunar viðfangsefnisins hverju sinni . Ég hef nýlega byrjað að nálgast dýr á mun beinskeyttari og persónulegri máta en áður. Verk mitt á sýningunni er samsett heild teikninga, ljósmynda, textaskrifa og skúlptúrs sem hefur það að viðfangsefni að greina margslungið samband okkar við dýr. Í gegnum þetta ferli hefur mér fundist ég komast nær dýrinu í sjálfri mér, fundist ég geta talað fyrir þau og í gegnum þau. Að þau séu ég og að ég sé þau.
Verk Ingu Maríu er samsett heild teikninga, ljósmynda, textaskrifa og skúlptúrs.
Tilraun við faðmlagið – Claire Paugham
Í mínum augum á sér stað myndræn hliðstæða þegar ég virði fyrir mér grjót. Ég sé svipa til áferðar á holdi, hráu holdi. Ég get ekki útskýrt þetta, þetta bara gerist. Ég ber kennsl á áferð sem er þarna inn á milli. Eftirlætisskilgreining mín á hliðstæðu er frá Michel Foucault sem sagði að hún væri „spenna sem aldrei slaknar á milli tveggja brúna sitthvorumegin við djúpan dal,“ sem skapar „dásamleg átök líkinda.“ Ég skapa einnig ímyndaða margræða gripi í keramik, sem er annað efni sem ég hef sterka tengingu við, og tekst þar á við hugmyndir um formleysuna og um tilbúin form andspænis náttúrulegum. Ég finn samhengi með því að brjóta niður ólíkindi og útgiska, alhæfa. Líkaminn sem landslag og landslag sem líkami.
Ekkert hefur breyst – Anne Rombach
Æ ofan í æ stend ég mig að því að ímynda mér það sem virðist ómögulegt, ósýnilegt og óþekkt, til þess að láta reyna á merkingu gegn merkingarleysu, til að finna leið til að elska það sem bæði heillar mig og hræðir, svo sem þverstæður, mótsagnir og óvissu. Það rann upp fyrir mér hversu gríðarlega tungumála- og táknkerfið stjórnar skynjun minni. Ég brýt það niður, misskil það vísvitandi, fagna mismælum og öðrum málfarslegum slysum. Það getur opnað bæði huga og skynun að sundurgreina tungumálið. Við það birtast takmarkanir tungumálaheims okkar og það gríðarlega, ólýsanlega, óþekkta og tóma rými milli línanna sem við notum í samskiptum okkar.
The post Útskriftarsýning meistaranema appeared first on sím.