Quantcast
Channel: sím
Viewing all articles
Browse latest Browse all 4356

Leiðsögn með listamanni: Katrín Elvarsdóttir

$
0
0

Leiðsögn með listamanni: Katrín Elvarsdóttir

Næstkomandi sunnudag, 21. febrúar kl. 15, mun Katrín Elvarsdóttir ræða við gesti um sýningu sína Margföld hamingja. Ljósmyndasýningar Ingvars Högna og Katrínar Elvarsdóttur standa samhliða í Gerðarsafni sem liður í Ljósmyndahátíð Íslands.

Katrín Elvarsdóttir sýnir myndaröðina Margföld hamingja, sem hún vann í Kína á árunum 2010-2014. Katrín dregur upp mynd af borg á mörkum þess hversdagslega og skáldaða sem einkennist af hrynjandi augnablika og frásögn í formi endurtekninga. Náttúran í borginni býr í plöntum sem hafa náð rótfestu í manngerðu umhverfinu, í endurgerð á veggspjöldum og blómamynstrum í klæðnaði og áklæðum húsgagna. Mannlífið birtist í portrettum af eldri konum, myndum af híbýlum og fundnum skúlptúrum. Í myndaröðinni fangar Katrín stillu í mannösinni sem stangast á við titil verkanna –  tvítekningu á kínversku tákni fyrir hamingju, sem er notað í skraut og til að marka hátíðlega viðburði.

Katrín Elvarsdóttir (f. 1964) lauk BFA námi við Art Institute í Boston árið 1993. Hún stundaði nám í ljósmyndun við Brevard Community Collage 1990 og lauk BA gráðu í frönsku við Háskóla Íslands 1988. Katrín hefur haldið margar einkasýningar hérlendis og erlendis, þar á meðal Vanished Summer í Deborah Berke í New York 2014 og í Listasafni ASÍ 2013, Hvergiland í Listasafni Reykjavíkur 2010 og Heima heiman í Ljósmyndasafni Reykjavíkur 2008. Verk Katrínar hafa verið í fjölda samsýninga hérlendis og erlendis, þar á meðal Anti-Grand í University of Richmond Museum 2015, Visible Iceland í Hillyer Art Space í Washington 2014 og Nordic Art Station í Eskilstuna Konstmuseum 2013. Katrín hefur verið tilnefnd til ýmissa virtra verðlauna eins og heiðursverðlauna Myndstefs 2007 og Deutsche Börse Photographic Prize 2009. Hún hefur einnig sinnt sýningarstjórnun og kennt ljósmyndun hérlendis og erlendis.

The post Leiðsögn með listamanni: Katrín Elvarsdóttir appeared first on sím.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 4356