- „The Valley er ferskur blær inn í dansleikhús Íslands þar sem hugmyndafræði á til að kæfa sjálfar sýningarnar. Í þessu tilviki blandast hugmyndir og framkvæmd á flæðandi hátt og útkoman þar af leiðandi bæði áhugaverð og skemmtileg. Niðurstaða: Metnaðarfull sýning, full af vel heppnuðum útfærslum.“ ★★★★ – Fréttablaðið
- ,,Textinn var svo frábær að ég væri til í að fá afrit af honum í ljóðabók.“ – Reykvélin
- ,,Íslenskir listamenn í leikhúsi og óperu gætu lært heilmargt af þeim Ingu Huld og Rósu.” – Víðsjá
- ,,Töfraheimurinn sem skapaðist var einstakur og spennan að sjá hvað kæmi næst var kitlandi.” – Hugrás
Dalurinn er staður þar sem manneskja og vél hafa runnið saman og mörkin á milli hins náttúrulega og þess gervilega eru horfin. Dalurinn er staður tvöföldunar og afrita, þar sem tveir verða að einum áður en þeir klofna og margfaldast aftur, svo óljóst verður hvar einn hluti endar og annar hefst. Hvað er afrit og hvað upprunalegt? Flytjendurnir leika sér á línu þess náttúrulega og ónáttúrulega, þess gervilega og upprunalega, og nota ýmis tæki til að skapa hljóð og hljóðin til að skapa hreyfingu, á meðan þær leita svara við því hvað ræður ferðinni.
Með dvölinni í dal hins kynlega, á óljósu gráu svæði, draga þær fram þá tvöföldu merkingu sem felst í hugmyndum um vélræna menn, lífrænar vélar, gervináttúru og tilbúna garða. Þessi tvöfalda merking ýtir burt sefandi þægindunum sem felast í fullkomnu samræmi, fullkominni stærðfræðilegri reglu og tilhneigingu mannsins til að hafa stjórn á náttúrulegum fyrirbærum.
Við lifum á tímum þar sem mörkin á milli þess lífræna og tæknilega hafa máðst út. Þegar skilin á milli þess sem er ekta og þess sem er falskt verða óskýr, þá dýpkar dalurinn, hugtök verða óljós og ýmislegt kynlegt á sér stað.
The Valley er nýtt íslenskt dansverk eftir þær Rósu Ómarsdóttur og Ingu Huld Hákonardóttur í samstarfi við Sveinbjörn Thorarensen tónlistamann og Rögnu Þórunni Ragnarsdóttur. Verkið verður sýnt 29. nóvember.
The post The Valley – dansverk appeared first on sím.