Spekúlasjónir um speglun
Listamannaspjall
Verið velkomin á listamannaspjall laugardaginn 12. desember kl 15.00 í Listasal Mosfellsbæjar þar sem Unnur Óttarsdóttir mun segja frá verkunum á sýningunni Spekúlasjónir
og býður hún gestum að taka þátt í verkunum, ræða þau og upplifanir sínar.
Sýningin er opin til 2. janúar 2016. Opið er 12-18 virka daga og laugardaga 13-17. Gengið er inní Listasalinn í gegnum Bókasafn Mosfellsbæjar Kjarna, Þverholti 2, Mosfellsbæ.
Á sýningunni Spekúlasjónir eiga Unnur Óttarsdóttir og Rán Jónsdóttir það sameiginlegt að vinna með speglun og spegla. Verkin eru unnin út frá hugmyndum um vísindalega og mannlega vörpun. Spegilmyndir sýna okkur ný sjónarhorn sem Unnur og Rán deila með áhorfendum á sýningunni. Orðin spegill og spekúlasjón eiga rætur sínar að rekja til latneska orðsins „speculum” sem merkir að hugurinn spegli heiminn.
Rán er menntaður myndlistarmaður og verkfræðingur og verk hennar á sýningunni eru leikur myndlistarmannsins að stærðfræðinni sem hún lærði í verkfræðináminu í þýskum háskóla. Stærðfræði er flókin og torræð og hefur notagildi í alvöruþrungnum heimi tækni og vísinda, en hinsvegar einnig í myndheimi sem má einangra frá fræðunum og láta standa í aðalhlutverki með stærðfræðiformúluna í aukahlutverki sem titil verksins.
Unnur er menntaður myndlistarmaður og listmeðferðarfræðingur og eru verk hennar unnin út frá tengslum við sjálfið, umhverfið og aðrar manneskjur ásamt mismunandi sjónarhornum persónulegrar upplifunar. Unnur vinnur m.a. með þátttöku- og venslalist og hvernig einstaklingurinn mótast í samskiptum og endurvarpi frá meðbræðrum sínum. Í verkunum kannar hún spurningar varðandi það að tilheyra, að vera séður og að birtast í augum annarrar manneskju. Einstaklingurinn, umhverfið og annað fólk renna saman og mynda hvort annað.
Rán Jónsdóttir (1961) lauk BA gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands 2011og MA gráðu frá sama skóla 2014. Einnig er Rán með Dipl.Ing. gráðu í rafmagnsverkfræði frá Tækniháskólanum í München. Rán hefur tekið þátt í fjölda myndlistarsýninga. www.ranjonsdottir.com
Unnur Óttarsdóttir (1962) lauk BA gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands 2010 og MA gráðu frá sama skóla 2015. Unnur er einnig með doktorspróf í listmeðferð frá University of Hertfordshire í Englandi. Unnur hefur tekið þátt í fjölda samsýninga hérlendis og erlendis og hefur hún einnig sýnt á einkasýningum. www.unnurottarsdottir.com
The post Listamannaspjall – Spekúlasjónir um speglun appeared first on sím.