HUGAR TVINNAST – INNGILDANDI LISTHEIMUR
Uppbygging námskeiðsins er tvíþætt.
Annars vegar verður sjónum beint að listasögu fatlaðra listamanna. Fjallað verður um ólíka listamenn, einkenni og áherslur í verkum hvers og eins og lesið í listaverkin jafn óðum.
Eins verður fjallað um fötlunarlist, upphaf hennar og hvernig listin er nýtt til að ögra samfélagslegum hugmyndum um fötlun.
Hins vegar vinna ófatlaðir og fatlaðir nemendur/listamenn saman í pörum að sameiginlegri, óvænti lokaútkomu.
Í hverju pari er einn fatlaður listamaður og einn ófatlaður listamaður. Pörin stilla saman strengi og vinna að sameiginlegri óvæntri lokaútkomu. Gerðar verða allskonar liðleikaæfingar sem ýta undir frelsi í sköpun.
Átta þátttakendur verða á námskeiðinu, fjórir fatlaðir nemendur og fjórir ófatlaðir nemendur.
Í lok námskeiðsins eiga nemendur að:
• hafa fengið innsýn í sögu fatlaðra listamanna og fötlunarlistar
• þekkja muninn á fötlunarlist og listsköpun fatlaðs fólks
• geta nýtt sér mismunandi liðleikaæfingar til að örva flæði hugmynda og frelsi í sköpun með áherslu á leikgleði og að sleppa tökunum á því sem þykir „fullkomið“.
• geta séð möguleika í samvinnu og samtali í þeim tilgangi að dýpka hugmyndavinnu sína og geta unnið úr þeim með skapandi hætti
• hafa unnið verk í sameiningu/pari og þannig haft áhrif á sköpun hvers annars
Námskeiðið, sem er 2 ECTS, er hluti af meistaraverkefni Hörpu Björnsdóttur, sjónlistakonu og meistaranema í listkennsludeild LHÍ.
Kennslutímabil: Miðvikudagar og föstudagar frá 15-17, hefst 24. febrúar, stendur til 26. mars.
Skráning og nánari upplýsingar á heimasíðu Opna LHÍ

Harpa Björnsdóttir, sjónlistakona og meistaranemi
The post Hugar tvinnast: Opið námskeið fyrir fatlaða og ófatlaða nemendur appeared first on sím.