Elísabet Jökulsdóttir verður heiðurslistamaður hátíðarinnar

Mynd: Rainy Siagian
Alþjóðlegi myndlistartvíæringurinn Sequences verður haldinn í tíunda sinn í október 2021. Sequences er afsprengi sköpunarkraftsins sem kraumar hér á landi og hefur nú fest sig í sessi sem mikilvægur vettvangur fyrir þróun myndlistar á Íslandi. Hverju sinni er teflt fram kröftugum og framsæknum sýningarstjórum en sýningastjórar hátíðarinnar að þessu sinni eru Þóranna Dögg Björnsdóttir, listakona og Þráinn Hjálmarsson, tónskáld.
Undirtitill Sequences, real time art festival, vísar til upphaflegu áherslu hátíðarinnar á tímatengda miðla og verk sem unnin eru í rauntíma. „Hátíðin í ár beinir sjónum sínum að manngerðum tímavísum í umhverfi okkar. Til dæmis hvernig „lesa“ megi tíðarandann í almennum athöfnum okkar og af ráðandi hugmyndum í samfélaginu hverju sinni. Samfélagslegar hugmyndir og hugarfar eru síkvik líkt og samfélögin sjálf. Flæði tímans markast af endurnýjun og breytingu þessara hugmynda. Það að skapa hreyfingu á hugmyndir í samfélaginu hreyfir við tímanum.“ segir Þráinn Hjálmarsson, annar sýningarstjóri Sequences X.
Hryggjarstykki hátíðarinnar verður fjölbreytt, þverfagleg sýningar- og viðburðardagskrá með verkum eftir 27 íslenska og erlenda listamenn með ólíkan bakgrunn; danshöfunda, skáld, tónskáld, hönnuði og myndlistarmenn. Þá mun hátíðin teygja anga sína víða um borgina; Marshallhúsið úti á Granda, sem hýsir bæði Nýlistasafnið og Kling & Bang, Open, Flæði, Bíó Paradís og Ásmundarsal.
Heiðurslistamaður hátíðarinnar verður Elísabet Jökulsdóttir (f. 1958) ljóðskáld og rithöfundur en hún á að baki langan og einstakan feril í íslensku menningarlífi. „Verk Elísabetar eru sem barómeter á samfélagið hverju sinni. Elísabet er síkvik og örlát í umfjöllun sinni um mennskuna og með gjörningum sínum og orðlist spinnur hún þræði milli ólíkra listforma. Hún hefur rutt brautina í umræðu um geðheilbrigði og með frásögnum sínum og samtali við samfélagið gefur hún okkur tækifæri til að stækka sálina og spegla okkur í litrófi sammannlegra tilfinninga. Hún er alltaf að minna okkur á töfrana” segir Þóranna Dögg Björnsdóttir annar sýningarstjóri Sequences X.
Heiðurlistamenn fyrri hátíða eru Kristinn G. Harðarson (2019), Joan Jonas (2017), Carolee Schneemann (2015), Grétar Reynisson (2013), Hannes Lárusson (2011), Magnús Pálsson (2009) og Rúrí (2008).
Sequences X – 15.-24. október 2021
Sequences real time art festival verður haldin dagana 15.-24. október 2021 en hátíðin hóf göngu sína árið 2006. Sequences hefur það að markmiði að vera vettvangur fyrir framsækna myndlist með sérstaka áherslu á tímatengda miðla. Almenningi gefst tækifæri á að fá innsýn inn í það sem á sér stað í samtímamyndlist á Íslandi hverju sinni auk þess sem lagt er upp úr því að vera í tengslum við alþjóðlega listamenn og flytja spennandi verk til landsins.
Að hátíðinni standa listamannareknu sýningarstaðirnir Kling & Bang og Nýlistasafnið, Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar ásamt öflugu fagráði sem í sitja listamenn og óháðir aðilar sem eru virkir í listamannareknu senunni í Reykjavík hverju sinni.
+++++++++++++++++
Nánari upplýsingar:
Þóranna Dögg Björnsdóttir (f. 1976) lauk burtfararprófi í klassískum píanóleik frá Tónlistarskóla FÍH og BA-prófi í sjón- og hljóðlistum frá Konunglega listaháskólanum í Haag.
Verk Þórönnu, sem fléttast af mynd og hljóði, byggja m.a. á samspili kvikmyndar og lifandi tónlistarflutnings og taka á sig mynd í formi skúlptúra, gjörninga og tónverka. Hún hefur sýnt verk sín víða og komið fram á fjölmörgum tónleikum og listahátíðum á Íslandi og erlendis. Þóranna starfar einnig sem gjörningalistamaður með listahópnum Wunderland.
http://thorannabjornsdottir.com
Þráinn Hjálmarsson (f. 1987), tónskáld, nam tónsmíðar við Konunglega Konservatoríið í Haag og
við Listaháskóla Íslands á árunum 2009-2011.
Þráinn er meðlimur tónskáldasamtakanna S.L.Á.T.U.R og heldur hann utanum tónleikaröðina Hljóðön, sem haldin er af Hafnarborg – Lista- og Menningarmiðstöð Hafnarfjarðar. Var Þráinn jafnframt sýningarstjóri sýningarinnar „Hljóðön – sýning tónlistar“ sem stóð yfir í aðalsal Hafnarborgar frá janúar til mars 2019. Hlaut sýningin íslensku tónlistarverðlaunin sem viðburður ársins 2019.
Tónverk Þráins hafa verið futt víða um heim af hinum ýmsum flytjendum og hljóðfærahópum. Plata Þráins frá 2018, Infuence of buildings on musical tone, kom út á vegum New York útgáfunnar CARRIER Records haustið 2018 og hlaut lofsamlegar undirtektir m.a. í The Wire, Neue Zeitschrift für Musik, TEMPO Journal, I care if you listen, Sequenza21, Bandcamp daily og The National Sawdust Log, ásamt því að hljóta tilnefningu til Íslensku tónlistarverðlaunanna 2018 sem plata ársins í sígildri- og samtímatónlist.
http://thrainnhjalmarsson.info
Sequences – real time art festival er alþjóðleg myndlistarhátíð, sem haldin er annað hvert ár í Reykjavík. Meðal listamanna sem sýnt hafa á fyrri hátíðum eru Joan Jonas, David Horvitz, Hekla Dögg Jónsdóttir, Guido van der Werve, Ragnar Kjartansson, Emily Wardill, Ragnar Helgi Ólafsson, Carolee Schneemann, Rebecca Erin Moran, Finnbogi Pétursson og Alicja Kwade svo örfáir séu nefndir. Sýningastjórar fyrri hátíða hafa verið íslenskir og erlendir listamenn og sýningastjórar og má þar nefna Margot Norton, Markús Þór Andrésson og Alfredo Cramerotti.
The post Þóranna Dögg Björnsdóttir og Þráinn Hjálmarsson sýningarstjórar alþjóðlegu myndlistarhátíðarinnar Sequences X appeared first on sím.