Beint streymi á Facebooksíðu Ljósmyndasafnsins 4. des. kl. 11:00-11:50.
Fegurðin, í sambandi við lífið er yfirskrift Föstudagsfléttu Borgarsögusafns sem streymt verður á Facebooksíðu Ljósmyndasafns Reykjavíkur 4. desember kl. 11:00-11:50. Sigrún Alba Sigurðardóttir dósent við Listaháskóla Íslands fjallar um bókina Fegurðin er ekki skraut. Íslensk samtímaljósmyndun, sem kom út í ágúst síðastliðnum og segir frá tilurð hennar, áherslum og tilgangi. Í bókinni fjalla átta fræðimenn um íslenska samtímaljósmyndun og setja í samhengi við alþjóðlega strauma í ljósmyndun, myndlist, heimspeki og listasögu.
Í fyrirlestrinum mun Sigrún Alba einnig fjalla um rannsókn sína er varðar ljóðræna frásögn í íslenskri og norrænni samtímaljósmyndun en hluti af þeirri rannsókn birtist í grein hennar í áðurnefndri bók. Greinin fjallar um ákveðna fagurfræði sem hefur verið áberandi í verkum íslenskra og norræna ljósmyndara og kenna má við ljóðræna nálgun á veruleikann, og þá tíma sem við lifum nú og lýsa má sem hamfaratímum í fleiri en einum skilningi. Það er ef til einmitt á tímum hamfarahlýnunnar, smitsjúkdóma, sögulegra og persónulegra harmleikja sem við áttum okkur á því að fegurðin er kjarni lífsins – og þá er ekki átt við yfirborðslega fegurð, heldur þá fegurð sem felst í því að bæði skynja og mynda tengsl við veruleikann.
Sigrún Alba hefur meðal annars fengist við samtímaljósmyndun og myndlist í rannsóknum sínum og sent frá sér bækurnar Afturgöngur og afskipti af sannleikanum (2009), Endurkast. Íslensk samtímaljósmyndun (2008) og Det traumatiske øjeblik (2006), sem allar fjalla um þetta efni. Nýjasta bókin hennar er Snert á arkitektúr (2017) sem hún vann með Daniel Reuter ljósmyndara.
Föstudagsfléttan er viðburðaröð Borgarsögusafns þar sem fjölbreyttum sjónarhornum er fléttað saman við sýningar og starfsemi safnsins.

The post Föstudagsfléttan: Fegurðin, í sambandi við lífið 4 Desember kl. 11:00 – 11:50 appeared first on sím.