Um málefni Gerðarsafns
Stjórn Sambands íslenskra myndlistarmanna, SÍM, lítur þá stöðu sem upp hefur komið í Gerðarsafni alvarlegum augum, en nú hefur forstöðumaður safnsins, umsjónarmaður fræðlsustarfs og ráðgjafaráð safnsins sagt sig frá störfum sínum við Gerðarsafn.
Mál þetta hefur ekki bara með Gerðarsafn sjálft eða Kópavogsbæ að gera, því auk þess nauðsynlega og öfluga starf sem safnið sinnir í þágu myndlistar á Íslandi, þá hýsir Gerðarsafn merkilega safneign — sameiginlegan menningararf þjóðarinnar. Gerðarsafn hefur einnig þann aukinn heiður að vera hið eina listasafn á Íslandi sem ber nafn konu, Gerðar Helgadóttur. Safnið hefur þannig verið mikilvægur stöpull í íslenskri myndlist undanfarin ár. Vegna þess er það stjórn SÍM verulegt áhyggjuefni ef starfsemi og starfsumhverfi safnsins speglar ekki þá miklu virðingu sem bera þarf þessu safni og ef röskun yrði á starfsemi safnsins út frá þessu máli.
Fyrir hönd stjórnar, félaga SÍM, og myndlistar á Íslandi hvetjum við til þess að staða safnsins og starfsumhverfi verði skoðuð vandlega af öllum hlutaðeigandi aðilum í ljósi þeirrar stöðu sem komin er upp. Stjórn SÍM er reiðubúin til að vinna í samstarfi við þá aðila sem standa að safninu og tryggja faglega og öfluga starfsemi Gerðarsafns nú og til framtíðar.
Fyrir hönd stjórnar Sambands íslenskra myndlistarmanna – SÍM
Anna Eyjólfs, formaður

The post Fréttatilkynning vegna Gerðarsafns appeared first on sím.