Quantcast
Channel: sím
Viewing all articles
Browse latest Browse all 4356

Fundargerð Aðalfundar SÍM 2020

$
0
0

Aðalfundur Sambands íslenskra myndlistarmanna 2020

22. júní, 2020, kl. 17

Hlöðuloftinu, Korpúlfsstöðum. Reykjavík

Fundarstjóri: Hlynur Helgason

Ritari: Hildur Elísa Jónsdóttir

Viðstaddir stjórnarmeðlimir: Anna Eyjólfsdóttir (formaður), Starkaður Sigurðsson(varaformaður), Hlynur Helgason og Rúrí


Fundargestir voru 26 talsins

Í fundarboði var dagskrá aðalfundar svohljóðandi:

1. Skýrsla stjórnar

2. Ársreikningar kynntir og lagðir fram til samþykktar

3. Stjórnarkosning, kynning nýrra fulltrúa

4. Kosning fulltrúa í sambandsráð SÍM fyrir hönd félagsmanna með einstaklingsaðild (einn fulltrúi sbr. 9. gr. laga SÍM)

5. Kosning félagslegs skoðunarmanns og endurskoðanda til eins árs

6. Lagabreytingar

7. Ákvörðun félagsgjalda

8. Önnur mál:

1.         Umræður um styrkja- og launamál, eftir því sem tími vinnst til.
2.         Umræður um vinnustofur (bætt við á fundi).

1. Skýrsla stjórnar

Formaður SÍM setur fundinn og ber fundarstjóra og ritara undir viðstadda, þau eru samþykkt einróma.

Fundarstjóri, Hlynur Helgason, tekur að sér fundarstjórn og gefur Önnu Eyjólfsdóttur orðið. Aðalfundur SÍM 2019-20 hefst á lestri skýrslu stjórnar, Anna Eyjólfsdóttir sagði frá:

„Kæru félagar, velkomin á aðalfund SÍM hér á Hlöðulofti Korpúlfsstaða. Ég sting upp á Hlyni Helgasyni sem fundarstjóra aðalfundar og Hildi Elísu Jónsdóttur sem ritara. Samþykkir fundurinn það? [Fundargestir samþykktu tillögu formanns einróma] Á Hlöðuloftinu bindur stjórn SÍM vonir við að hér verði fast og viðurkennt sýningarrými í framtíðinni. Við erum stödd á samsýningu nokkurra myndistarmanna í SÍM.  Félagsmenn SÍM eru nú 910 talsins, alls voru 87 nýjir félagsmenn í SÍM skráðir 2019.

Skýrsla Stjórnar 2020

2. Ársreikningar kynntir og lagðir fram til samþykktar

Ingibjörg Gunnlaugsdóttir, framkvæmdastjóri SÍM,  kynnti ársreikninga SÍM fyrir 2019, en þeir hafa verið undirritaðir af Guðrúnu Erlu Geirsdóttur, félagslegum skoðunarmanni, og stjórn SÍM hefur samþykkt þá. Rekstrarreikningurinn var kynntur á skjávarpa, en framkvæmdir á Seljavegi vegna gestavinnustofunnar settu stórt strik í reikninga þessa árs.. SÍM fékk alls 8 milljónir í styrki, þar af 6 milljónir frá ríkinu. Hluti tekna SÍM eru tilkomnar vegna Artóteksins, en rekstrartekjur vegna gestavinnustofa SÍM og vinnustofa voru  97.936.922 ISK árið 2019, enda voru Gestavinnustofurnar uppbókaðar allt árið. Aðrar tekjur eru þjónustusamningar við Listskreytingasjóð og þóknanir vegna samkeppna.

Rekstrargjöld árið 2019 vegna Gestavinnustofa SÍM og vinnustofa SÍM voru rúmar 80 milljónir og launakostnaður var 27 milljónir. Annar rekstrarkostnaður SÍM voru m.a. húsaleiga, rafmagn og hiti, tryggingar og útgáfa STARA, alls 1,5 milljónir.

Jákvæð rekstrarafkoma ársins er því um 3 milljónir, 3.188.533 ISK nákvæmlega.

Ársreikningurinn var þá borinn upp til samþykktar og var samþykktur athugasemdalaust.

3. Stjórnarkosning, kynning nýrra fulltrúa

Á aðalfundi SÍM árið 2018 urðu mistök við stjórnarkjör, sem uppgötvuðust  í vor.  Samkvæmt reglum SÍM á að kjósa tvo stjórnarmenn og einn varamann á hverjum aðalfundi sem sitja tvö ár í senn þannig að ávalt sé helmingur stjjórnarmanna með reynslu. Árið 2018 láðist að kjósa einn stjórnarmann til eins árs í stað Önnu Ejólfsdóttur sem gaf kost á ér til formanns. Til að leiðrétta skipan í stjórn á aðalfundi 2020 sagði Hlynur Helgason sig úr stjórn fyrir þennan aðalfund (en hann hafði eingöngu setið eitt ár) Sitjandi formaður gaf kost á sér til endurkjörs, Hlynur Helgason og Hulda Rós Guðnadóttir buðu sig fram til stjórnar og Páll Haukur Björnsson bauð sig fram til varastjórnar. Engin mótframboð bárust og því eru sjálfkjörnir í stjórn SÍM, Hlynur Helgason, Hulda Rós Guðnadóttir og Anna Eyjólfsdóttir. Páll Haukur Björnsson hlaut kosningu sem varamaður. Áframhaldandi í stjórn eru Starkaður Sigurðsson og Rúrí og Freyja Eilíf Logadóttir heldur áfram sem varamaður. Á næsta ári verður því kosið um tvo nýja stjórnarmeðlimi, auk varamanns.

Hér fékk Hulda Rós Guðnadóttir orðið, hún var með á fundinum í gegnum Skype frá Berlín. Hún ákvað að bjóða sig fram í stjórn SÍM vegna áhuga á réttindum myndlistarmanna á Íslandi. Hún er í samtökum myndlistarmanna í Berlín og hefur því áhugaverðan vinkil á réttindabaráttuna hérna heima og aðra innsýn sem gæti nýst sem einskonar liðveisla í baráttunni. Þá vill hún sérstaklega bæta starfsumhverfi þeirra myndlistarmanna sem vinna með vídjómiðla, en hún vinnur sjálf í vídjómiðla og svo í kvikmyndum og hefur því einstaka stöðu í þeim efnum. Þá vill hún vera fulltrúi íslenskra myndlistarmanna sem eru búsettir erlendis, því þeir eru og verða alltaf hluti af íslensku senunni.

4. Kosning fulltrúa í sambandsráð SÍM fyrir hönd félagsmanna með einstaklingsaðild (einn fulltrúi sbr. 9. gr. laga SÍM)

Leitað eftir einstaklingsframboði í sambandsráð SÍM, sem hittist u.þ.b. einu sinni á ári, fyrir hönd beinna félagsmanna SÍM, þ.e. þeirra sem ekki eru skráðir í undirfélag SÍM heldur beint í sambandið. Þar sem aðeins beinir félagar eru kjörgengir voru beinir félagar á fundinum beðnir um að rétta upp hönd. Hildur Elísa Jónsdóttir bauð sig fram og hlaut einróma kjör.

5. Kosning félagslegs skoðunarmanns og endurskoðanda til eins árs

Ingibjörg Gunnlaugsdóttir og Anna Eyjólfsdóttir lögðu til að Guðrún Erla Geirsdóttir byði sig fram til áframhaldandi skoðunarmennsku, engin mótframboð bárust og Guðrún Erla því sjálfkjörin.

Júlíana Gísladóttir var kjörin enduskoðandi.

6. Lagabreytingar

Stjórn SÍM leggur til að félagsmenn 70 ára og eldri greiði hálft árgjald til sambandsins. Miklar og málefnalegar umræður spunnust um tillöguna og voru menn ýmist  með eða á móti.

Að endingu var kosið um tillöguna og var lagabreytingartillagan samþykkt með 24 atkvæðum gegn tveimur.  

13. grein laga SÍM hljóðar þá þannig:

Félagsmenn sjötugir og eldri greiða hálft árgjald til sambandsins. Stjórnarmenn SÍM skulu undanþegnir árgjaldi til sambandsins.

7. Ákvörðun félagsgjalda

Stjórn SÍM lagði til að félagsgjöld verði hækkuð um 2.000 ISK og verði því 20.000 ISK árið 2021. Félagsgjaldið hefur ekki hækkað í 4 ár, en hefur hækkað um 2.000 ISK á fjögurra ára fresti undanfarin ár.

Tvær tillögur: 1) kr. 18.000 2) kr. 20.000

Félagsgjaldið verði hækkað í kr. 20.000, fékk 14 atkvæði,

Félagsgjaldið verði óbreytt kr. 18.000, fékk  7 atkvæði

Félagsgjöld verða því kr. 20.000 árið 2021.

Fram kom tillaga um að í stað greiðslu til stjórnarmanna fyrir stjórnarfundarsetu verði greiddur samgöngustyrkur. Samþykkt einróma.

8. Önnur mál:

1. Umræður um styrkja- og launamál, eftir því sem tími vinnst til.

Stefnt er að því að efla styrki Myndlistarráðs um 100 milljónir. Þetta var ráðgert fyrir Covid-19 en verður vonandi framfylgt óháð því.

2. Umræður um vinnustofur (bætt við á fundi)

Erla Þórarinsdóttir og Ingunn Stefánsdóttir, báðar með vinnustofu á Seljavegi, afhentu fundinum áskoun þar sem þess var krafist að stjórn SÍM felldi niður takmörkun á leigutíma í vinnustofuhúsum félagsins. En árið 2017 voru settar reglur um 9 ára hámarkstíma sem hægt væri að vera með vinnustofu í sama vinnustofuhúsi SÍM.

Formaður segir sjálfsagt að stjórnin skoði þetta aftur og tekur við þessari beiðni, en bendir jafnframt á að vinnustofur SÍM eru leigðar félagsmönnum til 3ja ára í senn og á 3 ára fresti renna allir leigusamningar út og geta þá allir félagsmenn sótt um vinnustofurnar. Þeir sem þegar eru með vinnustofu geta þá sótt um endurnýjun á samningi til næstu 3ja ára, en þó að hámarki þrisvar sinnum 3 ár, eða aldrei lengur en 9 ára í sama vinnustofuhúsi.  Áréttað er að SÍM sé 1000 manna félag og þar gildi lýðræðisleg vinnubrögð. Félagsmaður sem er búsettur í Berlín segir þetta vera gert svona erlendis og að sjálfsagt sé að svona leigustofur róteri þar sem þær eru ekki í einkaeigu. Bent er á að leiguöryggi listamanna í vinnustofuhúsum SÍM, öðrum en á Seljavegi og á Korpúlfsstöðum, er mjög lítið. Áréttað er að stóru vinnustofurnar á Seljavegi hafi ekki losnað í mjög langan tíma. Áréttað að hagsmunir myndlistamanna séu fyrst og fremst fólgnir í því að hafa vinnustofur og er lagt til að SÍM finni leið til að fjölga vinnustofuhúsunum. Hulda Rós leggur til að upplýsingar á vef SÍM um vinnustofur verði endurskoðaðar. Lagt til að stjórn SÍM ræði endurskoðun á reglunum og hvort hægt sé að hafa bæði lang- og skammtímaleigu á boðstólum fyrir félagsmenn. Formaður bendir á að skammtímavinnustofa – projectrými sé til leigu á Korpúlfsstöðum í 1 til 3 mánuði í senn. Lagt til að leiga á verkefnarýmum sé lægri en á vinnustofu. Lagt er til að félagsfundur verði haldinn til að ræða vinnustofumálin. Samþykkt einróma af fundargestum.

Fundi slitið og boðið upp á léttar veitingar í fundarlok.

The post Fundargerð Aðalfundar SÍM 2020 appeared first on sím.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 4356