Bjarni Daníelsson með myndlistarsýningu í Gallerí Gróttu
HVERNIG Á EKKI AÐ DEYJA / HOW NOT TO DIE
4. – 30. maí 2020
Bjarni Daníelsson
Hvernig á ekki að deyja / How Not to Die
Lengst af starfsævinni hefur Bjarni gegnt störfum á sviði mennta- og menningarmála, var m.a. skólastjóri Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1986 – 1994, framkvæmdastjóri Norræna menningarsjóðsins 1994 – 1996, skrifstofustjóri menningarmála hjá Norrænu ráðherranefndinni 1996 – 1999 og óperustjóri Íslensku óperunnar 1999 – 2007. Einnig starfaði hann sem kennari í myndlist og kennslufræði myndlistar um árabil.

Verkin á þessari sýningu eru öll unnin í Lúxemborg sumarið 2018.
Hvernig á ekki að deyja / How Not to Die er röð níu mynda sem sýna jurtir og líffæri. Nafnið á myndaröðinni er dregið af titli bókar eftir bandarískan lækni, Michael Greger, en hann er ákafur talsmaður jurtafæðis og hollustu í mataræði og hefur orðið einskonar æðsti prestur margra sem aðhyllast veganlífsstíl. Í bókinni rekur hann niðurstöður vísindalegra rannsókna á fæðutegundum, hollustu þeirra og óhollustu.
Þótt hugmyndin að myndaröðinni hafi kviknað við lestur bókarinnar er viðfangsefnið tekið allt öðrum tökum en í bókinni. Því hefur lengi verið trúað að ákveðnar jurtir hefðu lækningamátt fyrir mannslíkamann og jafnan fylgir sögunni á hvaða líffæri tiltekin jurt hafi einkum góð áhrif. Hver mynd í myndaröðinni Hvernig á ekki að deyja er tilvísun í þessi ævagömlu fræði og byggist á ákveðnum jurtum og því líffæri sem þær eiga að hafa læknandi áhrif á. Eðli málsins samkvæmt er farið afar frjálslega með öll smáatriði, hlutföll og liti, enda eru þetta málverk, ekki plöntufræði eða líffærafræðsla. Þrátt fyrir sæmilega skýr áform í upphafi, þá tekur málverk jú oftast völdin af höfundinum og vill ráða því sjálft hver útkoman verður.


The post Myndlistarsýningin Hvernig á ekki að deyja / How not to die í Gallerí Gróttu appeared first on sím.