Quantcast
Channel: sím
Viewing all articles
Browse latest Browse all 4356

Samsláttur – Boðskort

$
0
0

Vinnustofan og samfélag listamanna
– Jón Proppé

Myndlistarmenn starfa að mestu leyti einir nema í kringum sýningar eða þegar þeir þurfa að leita aðstoðar eða kaupa sér tæknilega þjónustu. Vinnustofan er þeirra helsti starfsvettvangur og þangað fara þeir oftast ef þeir eiga lausa stund. Jafnvel þeir sem vinna fulla vinnu annars staðar nýta kvöld og helgar fyrir vinnustofuna og skipuleggja svo fríið kringum sýningar eða önnur myndlistarverkefni. Það er á vinnustofunni sem listamaðurinn tekst á við efnivið sinn, þróar hugmyndir og aðferðir eða bara hugsar – allt í einveru.

Þó er það svo að stundum hafa margir listamenn vinnustofur á sama stað, oft í byggingum sem annað hvort stendur til að rífa eða enginn hefur not fyrir í svipinn. Fyrir rúmum þrjátíu árum var t.d. líflegt samfélag listamanna í gömlum smiðjum við Borgartún, u.þ.b. þar sem Arionbanki er núna, þar sem ungir listamenn fengu að koma sér fyrir þar til fundin væru önnur not fyrir lóðina. Í Hafnahúsinu höfðu nokkrir listamenn líka vinnustofur, að vísu óhitaðar, um svipað leyti; í því húsnæði er núna Listasafn Reykjavíkur. Þá er ótalið þegar Kling & Bang fékk inni fyrir vinnustofur í Hampiðjuhúsinu þar sem um fárra ára skeið var líflegasta listamiðstöð Reykjavíkur. Sambærileg dæmi má finna um allan heim.

Þar sem málum er svona fyrir komið verður til samfélag. Hver vinnur auðvitað áfram á sinni vinnustofu og að sinni list en hefur um leið félagsskap kollega. Það er hægt að spjalla yfir kaffibolla, líta yfir og sjá hvað nágranninn er að fást við eða leita álits og ráða.

Í flestum tilfellum verða þessi samfélög ekki langlíf – húsin eru á endanum seld eða rifin til að rýma til fyrir hóteli. Um nokkurra ára skeið hefur Samband íslenskra myndlistarmanna haft milligöngu um að leigja slíkt húsnæði og framleigja svo til listamanna. Á þessum stöðum verður til samfélag og eitt hefur myndast á síðust árum í Auðbrekku 14 í Kópavogi. Þessir listamenn hafa nú tekið sig saman um sýningu sem þau kalla Samsláttur.

Þetta er fjölbreyttur hópur enda er það fyrst og fremst nálægðin við vinnuna sem hefur tengt þau saman. Baldur Geir Bragason býr til einfalda en dálítið dularfulla smíðisgripi og innsetningar sem vöktu strax athygli þegar hann byrjaði að sýna. Guðbjörg Lind Jónsdóttir á langan feril í myndlistinni og er þekkt fyrir litmjúk og seiðandi náttúrumálverk sín. Jelena Antic flutti hingað frá Belgrad fyrir fjórum árum og hefur sýnt hér fínleg munsturmálverk þar sem net af línum raðast hvert ofan á annað og skapa óvænta dýpt á myndfletinum. Kristín Sigurðardóttir og Magnús Orri Magnússon hafa fengist við ýmsa miðla en sýna hér saman vídeóverk og ljósmyndir. Laufey Arnalds Johansen sýnir þykkt málaðar myndir sínar, unnar með aðferð sem hún hefur verið að þróa um nokkurra ára skeið og sýnt bæði hér og erlendis. Margrét Hlín Sveinsdóttir málar fínleg abstraktverk þar sem áferð og dýpt teiknast fram í endurteknum formum. Þorgerður Jörundardóttir er eflaust þekktust fyrir vinsælar barnabækur sem hún bæði skrifar og myndskreytir en hún fæst líka við myndlistina eina og sér og sýnir nú nýleg málverk. Þorsteinn Helgason málar litríkar abstraktmyndir í expressjónískum stíl þar sem sterk hrynjandi og ljóðræna ráða ríkjum.

Þannig talar hver með sínu nefi í Auðbrekkunni. Hver fæst við sitt á vinnustofunni en þar sem margar vinnustofur liggja saman verður til samfélag og þá jafnvel einhvers konar samsláttur.

The post Samsláttur – Boðskort appeared first on sím.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 4356