Fjallið flutti í nótt – sýningin stendur til 8.ágúst 2019
Magnea Ásmundsdóttir sviðsetur dulsögur -sögur sem láta ekki allt uppi við fyrsta augnatillit áhorfandans en eru þeim mun krefjandi þegar betur er skoðað. Þetta á við um öll verk hennar frá upphafi til þess sem hér er sýnt hvort sem um er að ræða skúlptúra, þátttökuverk, hljóðskúlptúra eða annað. Magnea ögrar áhorfendum með því að umbreyta íslensku landslagi, endurvinna það smækka það stóra og stækka það smáa. Markviss og nákvæm vinnubrögð listakonunnar byggja á hefðum Fluxus listar, gjörninga, og tímatengdrar listar. Þessa þætti notar hún til að ögra og tæla sýningargesti til þátttöku í verkunum sem hægt er að handleika og umbreyta.
Á þennan óvenjulega hátt sverja verk Magneu sig í ætt við íslenska landslagshefð án þess að gestir skoði landslagið eingöngu utanfrá á tvívíðum fleti. Hér skipta leikur og snerting lykil hlutverki.

Annar veigamikill þáttur í innsetningunni Fjallið flutti í nótt er hið stóra í því smáa og smáa í því stóra. Í meðförum Magneu verða þessir kraftar að yin og yang þar sem andstæðupör tvíhyggjuhugsunar leysast upp og verða eitt í öllu og allt í einu. Til að vera fær um að vinna á þennan hátt þarf Magnea að þekkja íslenska náttúru, heiðar og hraunbreiður, fjöll og hæðir. Þá vinnu hefur Magnea innt af hendi enda iðkaði hún fjallgöngur og hefur alltaf verið hrifin af fjöllum. Annað sem hefur fylgt henni er steinasafn foreldra hennar og hefur það safn orðið veigamikill þáttur í myndhugsun hennar svo og steinvölur sem hún hefur týnt upp á förnum vegi.
Steinana hefur hún svo ljósmyndað og sést afrakstur þeirrar vinnu glöggt á þessari sýningu. Við vinnsluna á steinunum öðlast þeir nýtt og óvænt líf sem er ekki af þessum heimi.

Annað sem einkennir þessa innsetningu er að Magnea umbreytir fjöllunum í púsluspil og duft sem gestir geta hellt i lófa sér og skoðað ummynduð fjöll og steinvölur sem geta fokið út i veður og vind þegar minnst varir.
Magnea lauk námi frá Myndlista- og handíðaskólanum í Reykjavík og hélt síðan til náms við Listaakademíið í Þrándheimi og Myndlistarakademíð í Karlshruhe í Þýskalandi. Auk þess hefur hún haldið fjölda einkasýninga og tekið þátt í samsýningum bæði hér á landi og erlendis. Dr. Ynda Gestsson

The post Fjallið flutti í nótt – sýning Magneu Ásmundsdóttur á Mokka appeared first on sím.