Listakonan Katrín I.J. Hjördísardóttir stofnar trúfélag í menningarrýminu Midpunkt í Hamraborg kl.16 sunnudaginn 3.Mars. Katrín óskar eftir því að fólk trúi á listina. Listin sé hið eina sanna frelsandi afl sem hefur máttinn til að umbreyta okkur og þar með heiminum, og allir aðrir guðir og aðrar stefnur veiti falska von. Þeir sem mæti á sýningaropnunina þetta sunnudagssíðdegi muni sannfærast.
Katrín hefur um langt skeið blandað saman trúmálum, stjórnmálum, heimspeki og listfræði í verkum sínum, sem hafa tekið á sig ýmsar myndir, málverk, ljósmyndir, vídjó og gjörningar. Sýning hennar List Er Okkar Eina Von mun sýna verk eftir hana sem fela í sér blöndu af öllu þessu en sem hluti af ferlinu stofnar Katrín trúfélag sem öllum býðst að ganga í, taka þátt og móta.

Með því að ganga í trúfélagið samþykkja einstaklingar að láta sóknargjöld sín renna til listsköpunar Katrínar Ingu. Midpunkt er sýningarrými sem rekið er af Ragnheiði Bjarnarson og Snæbirni Brynjarssyni. Það er styrkt af Kópavogsbæ.
The post List er Okkar Eina Von – Midpunkt í Hamraborg kl.16 sunnudaginn 3.Mars appeared first on sím.