Triangular Matrix er yfirskrift sýningar myndlistarkonunnar Ásdísar Spanó sem opnuð verður í Grafiksalnum, Tryggvagötu 17 laugardaginn 16. febrúar kl. 16. Í verkum sýningarinnar vinnur Ásdís með þríhyrningsformið og beinir athyglinni að breytileika þess og ólíkum birtingarmyndum í náttúrunni annars vegar og hinum manngerða heimi hins vegar.
Á sýningunni leitast Ásdís við að sameina ólíka heima, náttúruna og borgarlandslag þannig að úr verði óhlutbundin upplifun með vísun í báða heima. Skynjun leikur lykilhlutverk í málverkum Ásdísar og vinnur hún með sýnilega/ósýnilega tvískiptingu í marglaga málverkum, og nýtir sér eiginleika mismunandi efna til að skapa margslungin verk sem bjóða upp á virk samskipti við áhorfendur og umhverfi sitt, bregðast við breytingum á birtu og stöðu áhorfandans í rýminu.
Í verkum sínum setur Ásdís Spanó fram frumspekilegar og óhlutbundnar birtingarmyndir heimsins þar sem tilbúni hluti hans og náttúran lifa hlið við hlið í viðkvæmu en flóknu bandalagi. List Ásdísar rambar á mörkum tjástefnu og naumhyggjulistar, finnur jafnvægi á milli ólíkra þátta og sameinar þá í upphafinni fagurfræði.
Notkun ólíkra efna – bleks, vatns, olíulita og spreys – í verkum Ásdísar víkkar út möguleika málverksins og vekja upp djúpstæða og ævaforna áskorun: Tilraunir mannsins til að breyta náttúrunni og laga hana að sínum eigin vilja.
Sýningin er opin 16. febrúar – 3. mars 2019
The post Opnun / Ásdís Spanó opnar einkasýninguna Triangular Matrix appeared first on sím.