Gréta Mjöll Bjarnadóttir sýnir innsetningar sem byggja á leik með “klisjur og þrykk” í SÍM-salnum, Hafnarstræti 16, 5. okt. til 23. okt. 2018
Sýningin opnar föstudaginn 5. okt. kl. 17:00 – 19:00 og eru allir velkomnir.
Verkin spanna ólíkar leiðir í vinnu við klisjur og þrykk. Annars vegar flókna þróunarvinnu út frá lífrænum skissum, stafrænni vinnslu þessara skissa í lög sem skorin er út í í birkikrossvið í tölvustýrðum risafræsara CNC í FabLab. Það ferli byggir á að nútímatækni er beitt á gamlar hefðir klisjugerðar og prents.
Í öðrum grafíkverkum snýr Gréta Mjöll sér hins vegar til uppruna klisjunnar, og leggur áherslu á einfaldleika og snertingu við efnið sjálft og leyfir því að ráða ferðinni. Þau verk vísa til upprunans, uppvextinum á trésmiðju og einkennast af tilraunum og leik með “klisjur og þrykk”. Prentunin sjálf byggir á ferli þar sem olíulitir eru bornir á klisjurnar eftir tilfinningu og innsæi augnabliksins líkt og í málverki og prentað á pappír í nokkrum lögum.
Gréta Mjöll á langan sýningarferil að baki og hafa verk hennar alla tíð mótast af tilraunavinnu þar sem leitað er svara við spurningum sem koma upp hverju sinni. Á sýningunni sýnir Gréta Mjöll einnig fyrsta hluta hljóðverksins „Klisjur“ sem byggir á rannsóknarferli sem fór af stað með hugmyndar- og þróunarvinnu á fyrri hluta 2018 með viðtölum við konur. Hugmyndalegar forsendur byggjast að einhverju leyti á tilvistarveruleika hennar sjálfrar sem “eldri” kona og hvernig hún á að fóta sig í þeim fyrirframgefnu römmum eða hugmyndum sem eru inngrónar í samfélaginu.
The post Gréta Mjöll Bjarnadóttir: “KLISJUR” í SÍM salnum appeared first on sím.