Fundnar minningar á Mokka
Fimmtudaginn 12. október opnar Björgvin Ólafsson sýningu á grafíkmyndum á Mokkakaffi við Skólavörðustíg í Reykjavík. Sýningin ber yfirskriftina Fundnar minningar en myndirnar á sýningunni eru prentaðar með hefðbundnum grafíkaðferðum eftir gömlum prentklisjum sem fundust í ruslahrúgu í gamalli prentsmiðju á Vegahúsastíg fyrir meira 30 árum. Björgvin tók þessar prentklisjur til handargagns og hefur núna sett upp sýningu með myndunum.
Myndirnar eru líklega úr bókum, tímaritum og blöðum sem voru prentaðar í þeim prentsmiðjum sem voru til húsa á Veghúsastígnum allt frá því um 1940 þar til hætt var að prenta þar með blýi og offsetprentun tók við.
Myndirnar eru eftir ýmsa höfunda, fjórar þeirra eru eftir Halldór Pétursson teiknara þótt ekki sé vitað af hvaða tilefni þær voru teiknaðar, ein er eftir Barböru Árnason, myndskreyting úr hátíðarútgáfu Passíusálma Hallgríms Péturssonar frá árinu 1960. Nokkrar myndanna eru eftir danskan listmálara, Niels Skovgård, frá upphafi 20. aldar og voru í einfaldaðri útgáfu af Odysseifskviðu, þýdd úr dönsku sennilega uppúr 1940. Aðrar myndir eru eftir óþekkta höfunda, prentaðar af óþekktu tilefni og eru sýningargestir hvattir til að láta vita ef þeir kannast við myndirnar eða kunna einhver deili á þeim.
Björgvin Ólafsson útskrifaðist úr nýlistadeild Myndlista- og handíðaskólans árið 1986 og hefur komið víða við á ferlinum, starfaði lengi sem grafískur hönnuður fyrir fjölmiðla bæði prentmiðla og sjónvarp en kennir núna stafræna myndvinnslu og fjölmiðlagreinar við Upplýsingatækniskólann.
Sýningin stendur til 6. desember.
The post Fundnar minningar – grafíksýning Björgvins Ólafssonar appeared first on sím.