Quantcast
Channel: sím
Viewing all articles
Browse latest Browse all 4356

Haraldur Jónsson sýnir í Gallerí Úthverfu

$
0
0

Laugardaginn 10. júní 2017 opnaði Haraldur Jónsson sýninguna ,,Innhverfa / Úthverfa“ í Gallerí Úthverfu á Ísafirði.

Haraldur Jónsson stundaði nám í Myndlistarskólanum í Reykjavík, Myndlista- og handíðaskólanum, Kunstakademie Düsseldorf, Vestur-Þýskalandi og Institut des Hautes Études í París, Frakklandi.  Undanfarna áratugi hefur hann haldið á fimmta tug einkasýninga og tekið þátt í yfir hundrað samsýningum um víða veröld.  Heimasíða hans er haraldurjonsson.com.

Sýning Haraldar Jónssonar í Gallerí Úthverfu er stendur til sunnudagsins 30. júlí.

Innhverfa / Úthverfa

Þú stendur og gægist innum lítið gægjugat á stórum glugga og verður vitni að skemmtanalífinu einsog það á sér stað í hvítum kubbi í Reykjavík. Þar er kona, valin af handahófi sveipuð hvítu klæði yfir höfuð og niðureftir líkama. Hún er leidd áfram af manni – það var svipur með þeim áður en höfuðið hvarf undir draugalakið – í gegnum sal fullan af kunnuglegu fólki. Þú sérð gamla Sykurmola, gamla Nýhilista, erlend ljóðskáld, frænku þína sem rak einu sinni forlag, myndlistarkonu sem á barn með frægasta glímukappa landsins og auðvitað talsvert af ókunnugu fólki. Þú vilt heilsa en lætur það vera.

Það er kalt úti, við erum á hjara veraldar, ekki í ysnum, ekki í suðrænni höfuð-borginni, og þú herðir trefilinn um hálsinn og pírir opna augað, setur lófann fyrir hitt augað og starir innum gatið á galleríinu. Upp í rassgatið á galleríinu, gegnum meltingarveg úr ljósleiðurum, geislaður alla leið til Reykjavíkur. Þetta er augljóslega töfralampi – Laterna Magica – en þú ert ekki viss nákvæmlega í hvaða vídd sýningin á sér stað. Og sennilega er það einmitt galdurinn. Þú kannast við tilfinninguna af félagsmiðlum, þótt hún sé ekki alveg eins, en þetta: Að stara í gegnum op, vera í senn einn og með öðrum, í senn sjá og til sýnis. Einhver verður að hafa eftirlit með því sem hefur gerst, því sem gerist núna. Þessi einhver ert þú, hvítu kubbarnir sem þú starir í gegnum, eða listaverkið sem röltir um miðbæinn.

Það er gat á veruleikanum og það er einsog augað á þér hafi verið saumað fast við það. Þú fylgist með hverju skrefi, stendur grafkyrr og gegnumlýstur þótt þér sé farið að kólna því þú vilt ekki missa af neinu. Þau fara út úr húsinu. Þarna er sjálft Þjóðleikhúsið, sjálfur Klappar- stígurinn og konan með klæðið yfir höfðinu, sem gerir það að verkum að hún líkist ekki lengur manninum sem leiðir hana áfram. Hann er hærri en hún, teygðari, dekkri; hún er einsog hauslaus ísbjörn undir klæðinu, snertir heiminn í síðasta sinn, káfar á bílum og veggjum og dinglar reiðhjólabjöllum. Maðurinn segir ekkert en heldur þétt í hana. Hann er mjög alvarlegur. Hvað vakir fyrir honum? Leiðir hann konuna til aftöku? Ætlar hann að kvænast henni? Halda henni undir skírn? Gæsa hana?

Þú hallar þér að rúðunni og hugsar: Hvað ætli listaverkið sé langt? Er að fara að rigna? Og þú spyrð (engan sér- stakan): Er þetta augað á mér að horfa inn í galleríið eða augað á galleríinu að horfa út í heiminn? Inn í mig?

Þú hugsar: Er ég að missa af einhverju þarna inni í galleríinu, framan við kvikmyndina? Er ég að missa af einhverju í hinu galleríinu, handan við kvikmyndina? Eru allir enn með nóg í glösunum? Reykjavík utanhúss er ekki hvítur kubbur, hugsar þú, heldur svartur kubbur. Þú starir í gegnum tvo hvíta kubba – tvö gallerí – einsog linsu og filter. Ekki hreyfa þig frá opinu nema þú hreinlega ætlir að missa af einhverju.

Þú hugsar: Hvort er ég í salnum eða fyrir utan salinn? Þú ert í fjórða kubbinum, fjórðu víddinni – undir Kubba í Skutulsfirði, í kubbi heimsins, kubbur í heiminum – á meðan tveir heimskubbarar þvælast um í myrkrinu í Reykjavík, annar þeirra sveipaður laki, þungu klæði, að þér sýnist, svo ekki sjáist hvað þau eru annars lík, konan og maðurinn. Þú rýnir í skilti í myrkrinu og sérð að þarna er ekki ókeypis að leggja.

Óforvarendis birtist þýskur sjóstang- veiðimaður. Hérna við gluggann, það er að segja, ekki í rýminu handan hans, ekki í galleríinu handan rýmisins og þaðan af síður þarna á Klapparstígnum – og leggst á gægjur með þér, gerist túristi í enn öðrum heimi. Setur augað að öðru líkamsopi og þú veltir því fyrir þér hvort þú eigir að heilsa, en veist ekki til hvers er ætlast. Þið eruð í öllum veruleikum samtímis og spyrjið ykkur ósjálfrátt hvort þetta sé hluti af leiknum. Er þessi maður á vegum listamannsins – kannski hann sé á vegum sjálfrar listarinnar? Hann er dálítið léttur, það leynir sér ekki, það gæti bent til þess að hann sé nýkominn úr kokteilboðinu.

Þetta er kannski einhver vinur Sykurmolans frá því á meikárunum? Fyrir aftan sjóstangveiðimanninn standa fleiri þýskir sjóstangveiðimenn, kannski 6 eða 7, heil stórsveit af Deutsche Zuckerwürfel. Þeir eru líka léttir og tala saman í hálfum hljóðum, kannski eru þeir jafn þunnir og þeir eru léttir og skyldi engan undra, eftir aðra eins veislu.

Þegar sjóstangveiðimennirnir eru farnir og konan sem eitt sinn líktist lista- manninum en er nú hjúpuð í lak er búin að snerta heiminn, áreiðanlega í síðasta sinn, snúa þau aftur inn í hvíta kubbinn í Reykjavík. Sykurmolum, Nýhilistum, barnsmæðrum, myndlistarmönnum og öðrum menningarborgurum bregður aftur fyrir. Konunni er stillt upp og svo er hún óforvarendis afhjúpuð. Hún veit ekki hver hún var, hvar hún er, og svo veit hún það skyndilega. Líkist aftur listamanninum. Hún brosir. Þetta virðist ekki hafa riðið henni að fullu, en maður veit aldrei. Ekki á meðan það er enn alltílagi. Maður veit aldrei fyrren manni er riðið að fullu. Það gerist alveg án þess að gera boð á undan sér.

Einhver tekur af konunni polaroid- mynd. Það er ennþá kalt úti og þig langar að fara inn og fá þér kaffi, meðan þú bíður eftir því að sýningin opni. Þá ætlarðu að fá þér vín með öllum hinum.

Eiríkur Örn Norðdahl fyrir sýningu Haraldar Jónssonar í Gallerí Úthverfu, Ísafirði.

……………

Uppbyggingarsjóður Vestfjarða og Ísafjarðarbær styrkja rekstur Gallerís Úthverfu.

 

 

OUTVERT ART SPACE / Gallerí Úthverfa

opið eftir samkomulagi / open by appointment

ArtsIceland – Aðalstræti 22 – 400 Ísafjörður

www.kolsalt.is  +354 868 1845   galleryoutvert@gmail.com

The post Haraldur Jónsson sýnir í Gallerí Úthverfu appeared first on sím.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 4356